Sunnudagur 12. mars 2006
Fer á morgun
Það kom mér algjörlega í opna skjöldu þegar Continental flugfélagið sendi mér tölvupóst í dag um að ég gæti tékkað mig inn í vélina á netinu. Svo mundi ég að ég er í raun að fara til Houston á morgun. Var ekki alveg búin að fatta það í panikkinu við að klambra saman plaggatinu. En sum sé, plaggatið er útprentað og komið í hólk og á morgun er ég víst að fara í flugferð.
Á meðan verður Finnur einn heima með Önnu Sólrúnu, sem gæti reynst flókið því að hann hefur enga örugga pössun fyrir hana á þriðjudags- og miðvikudagsmorgun. Við erum nefnilega ennþá að bíða eftir að hún færist frá því að vera 5 eftirmiðdaga á viku í 4 heila daga á leikskólanum. Á meðan verður Finnur að vona að annað hvort verði einhver krakkinn veikur, eða þá að Ásdís nágranni geti tekið Önnu að sér. En það kemur allt í ljós.
Heilsan hjá henni er öll að koma til, kannski var hún með gubbupest eftir allt saman, eða kannski var það nóg að passa að gefa henni jógúrt að borða með pensillín-sullinu. Hún ældi amk ekkert í dag og var með sæmilega matarlyst, og glöð og kát að vanda. Hún fór með pabba sínum á safn og í lítinn dýragarð í dag, sem var víst mjög gaman fyrir utan einhverjar trítilóðar 10 ára stelpur sem góluðu og ískruðu!
Á meðan sat ég á skrifstofunni og klambraði og klambraði á milli þess að ég las mér til um Battlestar Galactica þættina. Núna er ég alveg húkkt. Þarf samt ekkert að horfa sérstaklega á þættina, vil bara vita söguna. Undarlegt það. Linscott leiðbeinandi var svo vænn að koma í vinnuna í dag og lesa yfir plaggatið mitt, það var vel þegið enda fæ ég svona tungumála-stopp þegar ég er þreytt. Mig bara vantar orð og þá sérstaklega á ensku.
Þegar ég var svo búin að prenta eitt eintak af plaggatinu kom í ljós að það var eitthvað skrítið í gangi með bandstrikin, það var eins og alls staðar þar sem ég var með bandstrik (eða mínus) þá færðist strikið til vinstri og næsti stafur á eftir til hægri, sem þýddi að það voru klumpar af stöfum hér og þar. Þar með þurfti ég að laga það (og setja inn hina tegundina af bandstrikum, þær eru víst amk tvær) og prenta allt saman aftur sem tók aðra klst til viðbótar.
En ég komst heim um kvöldmatarleytið og við áttum góða kvöldstund með Söruh og Augusto sem eru núna í miklu uppáhaldi hjá Önnu Sólrúnu. Það er frekar skondið að þegar þau eru búin að vera í heimsókn í smá stund, þá skiptir Anna Sólrún að miklu leyti yfir í að tala ensku, en samt ekki alveg. Þetta er greinilega að gerjast í hausnum á henni.
Ætli það sé samt ekki best að fara í rúmið núna, er búin að hálfpakka og því ekki eftir neinu að bíða. Flugið fer í loftið á hádegi, svo ég hef ágætis tíma í fyrramálið vona ég. Helsta vandamálið er að það gengur strætó fram hjá okkur sem fer á lestarstöðina, en það er hvergi stoppustöð nálægt. Ég ætla því að treysta á lukkuna og standa úti á gatnamótum og vona að ég komist um borð. Þetta er bara aumur og ókeypist kampus-stætó svo vonandi gengur það…