Föstudagur 14. apríl 2006
Hrakfalladagur
Jæks, þetta ætlar að vera erfiður dagur. Við mæðgur fórum í CostCo í morgun til að láta laga dekkið sem sprakk í gær. Eftir rúmlega klukkustundar bið þá kom í ljós að boltarnir sem halda dekkinu voru skakkir svo það var ekki hægt að festa skrúfurnar almennilega. Þar með var bílinn orðinn óökufær svo við þurftum að hringja í Finn, sem fékk vinnufélaga sinn til að skutla sér til okkar, og síðan okkur Önnu Sólrúnu heim, því hún þurfti að mæta á leikskólann.
Þegar dráttarbíllinn kom til að taka bílinn á verkstæði heyrðist víst eitthvað hljóð í bílnum og gæinn sagði síðan við Finn að öxullinn gæti verið eitthvað illa farinn. Sum sé, við hefðum bara átt að vera í rúminu í allan dag!
Í dag er svo síðasti dagurinn hennar Önnu Sólrúnar í bekknum sínum og í tilefni af því bjó ég til kort handa kennurunum hennar sem mér tókst fyrir rest að fá prentaða út.
Til að útskýra viðurnefnið “líka”, þá sagði Anna Sólrún alltaf á tímabili “Anna líka” í hvert skipti sem einhver var að gera eitthvað spennandi – og því er hún núna kölluð “Anna líka” í skólanum. 🙂