Sunnudagur 30. apríl 2006
Það er komið sumar!!
Það var heitt úti í dag – fyrsti “heiti” dagurinn í svolítið langan tíma held ég! Kannski að það sé bara komið sumar?!? 🙂 Lítið gert í dag svo sem því í gær hittum við krakkana (og fjölskyldur þeirra) úr gamla bekknum hennar Önnu Sólrúnar í garði í nágrenninu. Í dag vorum við því í letigír, fyrir utan þegar Kanada-Siggi leit við seinnipartinn og borðaði með okkur kvöldmat.
Í fréttum er það helst að ég rannsakaði loksins fyrir alvöru hvernig kjarninn í mangóum er í laginu. Ég er nefnilega loksins búin að uppgötva að mangó eru rosalega góð (og að papaja eru alveg ferlega vond) nema hvað að það hefur alltaf gengið hálf brösuglega hjá mér að skera kjötið utan af mangó-kjarnanum. Eftir subbulegt basl þar sem ég virtist ýmist lenda beint á kjarnanum eða fara sleppa undarlega vel fram hjá honum kom í ljós að… kjarninn er ílangur, stór og flatur!! Og ekki nóg með það – ysti kjarninn er bara skel utan um eitthvað sem virðist vera risastór baun!! 🙂
Í öðrum fréttum þá naut ég þess að búa á kampus í kvöld. Á kapalkerfinu er nefnilega að finna hina dularfullu stöð #5 sem er án gríns tengd við DVD spilara einhvers staðar á kampus – og þar eru sýndar DVD myndir (oftast mjög nýlegar) án auglýsinga! Í kvöld rambaði ég fram á Harry Potter mynd #4 sem ég hafði hreinlega aldrei náð að sjá og ég skemmti mér ágætlega við að horfa á hana. Finnur að sjálfsögðu sofnaði yfir henni (enda ekki Harry Potter-aður) en ég var nokkuð imponeruð yfir henni fyrir utan gæjann sem lék Mad-Eye Moody. Ég hafði alltaf séð annan mann fyrir í mér því hlutverki, og ofur-augað kom frekar illa út á mynd. Það var ekki nærri nógu “frantic”. Þess fyrir utan virtist takast ágætlega að þjappa bókinni niður í mynd…
Í þriðjum fréttum þá erum við núna í tilraunastarfssemi með að venja Önnu Sólrúnu af næturbleiunni. Kennararnir í nýja bekknum taka miklu meira undir af-bleiun en kennararnir í gamla bekknum gerðu (so far so good amk, hún hefur verið bleiulaus heilu dagana) og þar sem að það virðist vera svolítið happa-glappa hvort hún fær bleiu fyrir hádegislúrinn (og ef ekki, þá pissar hún undir) þá er kannski bara eins gott að reyna að “taka á málinu”. Við (ég) ætlum að minnsta kosti að reyna að halda út þessa viku, og í tilefni af því voru keypt aukalök í dag. Þau eru með blómum og fiðrildum (ekki hægt að fá “bara” hvít lök í Pottery Barn Kids) og Anna Sólrún heimtaði að taka annað þeirra strax í notkun. Nú er bara að vona að hún nái að fatta þetta allt saman áður en við verðum öll að svefngenglum! 🙂