Fimmtudagur 4. maí 2006
Einbeitning sneinbeitning
Gengur ekkert að einbeita mér að vinnunni, vinn í 5 sekúndur og er svo komin aftur í fréttaleit. Alveg ferlegt. Finn mér endalausar afsakanir, eins og að vera þreytt eftir tveggja tíma vinnu á leikskólanum í morgun á milli 08:30 og 10:30. Svo var ég þreytt eftir tveggja tíma hópfundinn eftir hádegi, sem var fyrsti hópfundurinn í rúman mánuð. Ég komst að því að það hafði lítið gerst á þessum mánuði, og lofaði betrumbætum. Fyrsta verk eftir fundinn var að labba niður á kaffihúsið á fyrstu hæð og kaupa mér skonsu. Gaaa!
Held í alvörunni að mér hafi svo tekist að HENDA lyklunum mínum á föstudaginn. Finn amk ekki kippuna og veit að einhvern tímann á föstudaginn voru lyklarnir mínir í plastpoka sem síðan fór í endurvinnsluna. Legg ekki í nána yfirferð á íbúðinni fyrr en um helgina í fyrsta lagi. Þangað til nota ég auka-húslykilinn og labba í skólann í staðinn fyrir að nota hjólið sem er harðlæst. Kannski að ég endi á því að kaupa Bic-penna til að lokka upp lásinn… Sjáum til.
Anna Sólrún átti hrakfallafullan dag á leikskólanum, tókst að klemma puttann og detta af þríhjóli svo núna er hún marin á annarri löppinni en ég sé ekkert að puttanum. Bleiumál eru á niðursveiflu. Næturtilraunirnar leiddu bara í ljós að hún er dóttir föður síns sem getur sofið í gegnum gjörsamlega allt og núna er hún aftur komin með bleiu á næturna. Í ljós kom að hún pissar tvisvar á nóttu, einu sinni rétt fyrir miðnætti og svo aftur um 5-6 leytið á morgnana. Þess fyrir utan eru þær farnar á skella bleiu á hana á leikskólanum því hún segir ekki alltaf til. Sem betur fer hafa þetta allt verið pissuslys og langt frá síðasta #2 slysi… sjö, níu, þrettán!
Ég nenni ekki að nauða í þeim að spyrja hana oftar hvort hún þurfi að fara á klósettið, því ef maður spyr og minnir hana á að segja frá, þá gengur þetta fínt. Þær vinna á ákveðinn hátt og það er erfitt að kría út extra athygli fyrir barnið þegar það er eitt af 15, en mér heyrðist örlítið á einni þeirra að þær ætli að fylgjast betur með yngri börnunum núna þegar sólin er farin að skína og krakkarnir allir ærslafullir eins og ný-útslepptar kýr eftir veturinn. 🙂