Sunnudagur 7. maí 2006
Helgin þotin
Eyddum mestan part helgarinnar í góðu yfirlæti (að venju) hjá Guðrúnu og Snorra – borðuðum góðan mat og spiluðum Settlers langt fram á nótt. Gamanið stóð svo lengi að við fengum að gista í stað þess að keyra heim um miðja nótt og ekki fannst Önnu það leiðinlegt (að fá að leika við Baldur í morgun líka). Í kvöld skruppum við svo í heimsókn til Gumma og Eddu og grilluðum pylsur með þeim í einmunablíðu í bakgarðinum á meðan krakkarnir léku sér á grasflötinni þeirra.
Svo í lokin er hér smá gullmoli frá Önnu Sólrúnu, en hún skemmti sér aðeins of mikið með Baldri til að láta vita að hún þyrfti að pissa og eftir seinna slysið þá brýndi ég fyrir henni (svolítið pirraður) meðan ég skipti um buxur á henni að það mætti ekki pissa í buxurnar og hún endurtók:
Anna Sólrún: Þa’ má ekki pissa í buxurnar; alleg bannað.
Finnur (pirraður): já, alveg rétt hjá þér. Nú er pabbi ekki glaður.
Anna Sólrún (hálf sorgmædd): Pabbi ekki glaður.
Finnur (enn svolítið beittur): Já, pabbi er ekki glaður núna.
#þögn#
Anna Sólrún (með hvolpasvip): Pabbi glaður?
Finnur: Nei, pabbi er ekki glaður.
#stutt þögn#
Anna Sólrún (með smábrosi): Pabbi glaður?
Finnur: Nei, pabbi ekki glaður.
#stutt þögn#
Anna Sólrún (flissandi): Pabbi glaður?
Finnur (glottandi): Neibb.
Anna Sólrún (skellihlæjandi): Pabbi glaður?
Finnur (brosandi): ok, pabbi glaður. 🙂
Það þarf greinilega ekki mikið til að bræða… 🙂