Þriðjudagur 27. júní 2006
Útgáfudagar hjá GreenBorder
Það eru spennandi dagar hjá mér í vinnunni þessa dagana en við erum að gefa út nýja útgáfu af GreenBorder (núna fyrir almenning í fyrsta skipti). Þessa dagana fara að birtast greinar í blöðunum, eins og PC Magazine greinin sem birtist á dögunum og fengum við glimrandi góða umsögn – og 4 af 5 mögulegum í einkunn.
Allt gott að frétta af öðrum vígstöðvum – Boltinn tröllríður öllu að sjálfsögðu. Ég vaknaði annars um daginn við Önnu sem lá í millunni (middlunni) hjá okkur þegar hún sagði við mig (mér til mikillar undrunar) “Pabbi, ég vil fótbolta”, sem hvað hana varðar er lúmsk beiðni um drösla pabba á lappir til að að fara með hana niður í morgunmat og leika niðri. 🙂
Hún er annars orðin algjör prakkari. Ég fylgdist með henni um daginn laumast upp á eldhússtól og grípa Seríós pakkann af eldhúsborðinu, sem við vorum nýbúin að neita henni um þar sem kvöldmatur var á næsta leyti og hún búin að borða nóg af Seríósi fyrr um daginn. Hún leit flóttalegum augum á mömmu sína og sá að hún var ekki að fylgjast með sér og stakk hendinni svo varlega ofan í pakkann. Ég fylgdist með þessu öllu saman og þegar höndin fór ofan í pakkann spurði ég hana ákveðið: “Anna Sólrún, hvað ertu að gera?”. Hún tók hendina skömmustulega upp úr pakkanum og var fljót að finna upp á afsökun: (flissandi) “Ég var að kitla Seríósið!” 🙂 Það fylgir ekki sögunni hvort Seríósið hafi hlegið mikið… 🙂