Þriðjudagur 18. júlí 2006
Þröngt á þingi
Þau Guðrún, Snorri, Sif og Baldur fluttu inn hjá okkur um helgina því að í síðustu viku kom gámur sem át allt dótið þeirra og þau eiga ekki eftir að sjá það aftur fyrr en í lok ágúst – og það á Íslandi!! Húsið þeirra er á meðan ennþá til sölu og ekki hægt að búa þar því það þarf að vera tandurhreint fyrir tilvonandi kaupendur.
Þar sem að Guðrún er ennþá að vinna hjá Google, og Anna Sólrún og Baldur leika sér svo vel saman, þá þótti okkur tilvalið að láta þau bara gista í gestaherberginu (Sif sefur reyndar á sófanum) – og það fyrirkomulag gengur bara ágætlega þó svo að húsið sé núna eins og afskaplega þröngt pinball spil… Á mánudaginn flýgur svo Snorri heim með börnin, en Guðrún verður áfram hjá okkur í viku til að klára sitt hjá Google, og svo flýgur hún heim líka.
Í öðrum fréttum er það helst að ég setti myndir á netið um helgina (vúhúúú), og að það er búið að vera heldur betur heitt hérna undanfarna daga. Hendurnar á mér eru ennþá til vandræða og vilja helst ekkert koma við lyklaborð eða tölvumýs, en ég þrjóskast við. Talandi um tölvur þá skipti ég alfarið yfir í gmail (Google Mail) kerfið í dag – en ég held gamla tölvupóstfanginu. Það er bara forritið sem ég nota sem breytist. (Það er nefnilega svo sniðugt þar að maður getur látið líta svo út að maður sé að senda frá einhverri annarri addressu sem maður á, með því einfaldlega að stilla reply-to rétt).
Af Önnu Sólrúnu er það að frétta að kennararnir í leikskólanum hafa oft orð á því hvað hún er vinsæl hjá hinum krökkunum. Hún getur (og gerir) leikið sér við alla krakkana og gerir það án teljandi vandræða. Nú var einmitt að koma holskefla af nýjum krökkum í bekkinn og ég held að það eigi eftir að vera gott því að eldri krakkarnir voru afskaplega fyrirferðarmiklir og oft allt í háalofti. Nýju krakkarnir virðast vera eitthvað meðfærilegri og ég vona að þetta verið bara ljúft.
Ég held áfram að krafsa mig áfram í mínu en finnst eins og ég komist aldrei alveg alla leið, bara eitthvað áleiðis. Ég hef litla sem enga tilfinningu fyrir því hvað er þess virði að skrifa um, ætli ég þurfi ekki bara að setjast niður og finna eitthvert sjónarhorn sem gæti verið áhugavert. Hef þess á milli verið að lesa greinar um mótlætið sem konur lenda í í akademískum störfum, núna nýlegast eftir mann sem var einu sinni kona (Nature (áskrift), NYT (ókeypis login) og Boston Globe (opið)). Hann segir að mesti munurinn á því að vera karl eða kona sé að núna geti hann klárað heilar setningar án þess að það sé gripið fram í fyrir honum!!
Það er líka fræg sagan af því þegar hann flutti fyrsta fyrirlesturinn eftir að hafa klárað umbreytinguna og einhver í salnum á að hafa sagt við sessunaut sinn: “Ben er miklu betri rannsakandi en systir hans Barbara” eða eitthvað álíka – jafnvel þótt Ben hafi verið að fjalla um rannsóknir sem hann framkvæmdi þegar hann var Barbara. Tricky heimur segi ég nú bara!