Sunnudagur 6. ágúst 2006
Börn, börn alls staðar!
Fyrst af öllu, hjartanlegar hamingjuóskir til Öddu og Halla sem voru að eignast barn númer tvö, í þetta sinn myndarlegan 15 marka og 53 cm strák! Mikið hlökkum til að sjá drenginn, svo ekki sé minnst á stóru systur, hana Hildi Sif!! 🙂
Við óðum annars í börnum í dag, hittum fjölskyldurnar úr gamla bekknum hennar Önnu Sólrúnar í garði í nágrenninu. Það fóru allir í sund og svo var borðað og leikið sér. Afskaplega gaman fyrir utan þegar ég ætlaði með Önnu Sólrúnu á klósettið. Kom þá í ljós að hún er orðin skíthrædd við “iðnaðar” klósett – og hún gjörsamlega fríkaði út og harðneitaði að pissa og ákvað að pissa frekar á sig seinna.
Þetta kemur til af því að flest klósett hérna úti eru sjálfvirk, það er, þau sturta niður þegar maður stendur upp, en þar sem Anna Sólrún er svo lítil þá sturta þau stundum niður á meðan hún situr ennþá á þeim. Ekki nóg með að henni bregði alltaf svakalega, heldur eru klósettin líka oft gríðarlega hávær og miklar drunur þegar vatnið hverfur ofan í gatið.
Síðustu skipti sem hún hefur sest á svona klósett (á öllum opinberum stöðum, í búðum og á veitingahúsum) þá hefur hún hreinlega skolfið af hræðslu og nú var sem sagt svo komið að hún bara harðneitaði, sama hvað ég reyndi að sannfæra hana um að þetta klósett væri gamaldags klósett sem myndi ekki sturta óvænt niður. Læti, læti öskraði mín bara og hélt fyrir eyrun. Bölvaði ég þar með klósettframleiðendum í sand og ösku og gafst upp.
Í öðrum ósögðum fréttum er að skapgerðin hennar Önnu Sólrúnar er farin að líkjast minni óheyrilega mikið. Fyrir utan þetta venjulega tveggja ára “I DO IT!” heimt (setjast sjálf á klósettið, loka efri bílstóls-smellunni…), þá virðist hún hafa mjög fastsettar hugmyndir um hvernig hlutir eigi að framkvæmast og ef það er ekki farið eftir því, þá er ekki von á góðu. Það verður t.d. að kyssa góða nótt rétt, teppin verða að vera rétt, koddarnir réttir o.s.frv. o.s.frv. Þekki ég þar sjálfa mig heldur vel, enda kölluð “prinsessan á bauninni” af mínum ektamanni… ahemm!
Skapgerð númer tvö sem ég kannast heldur við er þetta “mömmu”-stand. Núna eru stóru krakkarnir eiginlega allir farnir úr bekknum hennar Önnu Sólrúnar og margir “litlir” (en jafngamlir) krakkar komnir í staðinn. Þar sem Anna Sólrún er bráðþroska miðað við krakkana hérna úti (en nokkuð meðal á íslenskan mælikvarða) þá er hún gott ef ég held ekki hæst í bekknum – og er farin að “mamma” hina krakkana. Hún segir þeim óhikað ef þeir eru að gera eitthvað af sér og verndar þá ef þarf. Hljómar kunnuglega!!