Sunnudagur 13. ágúst 2006
Flutningar og afmæli Kamillu
Helgin leið hratt: Við eyddum henni að mestu í að hjálpa Augusto og Söruh að flytja af háskólasvæðinu. Við höfum undanfarna tvo morgna vaknað tiltölulega snemma og farið að hjálpa þeim við að pakka ofan í kassa (lau) og flytja yfir í nýju íbúðina þeirra (sun). Anna Sólrún var með í för báða daga, lét vel af og stóð sig eins og hetja – skemmti sér við að fylgjast með ósköpunum, spyrja alla spjörunum úr (“hvað ertu að gera? af hverju? af hverju?”), fylgjast varfærin með hundinum sem var í pössun hjá þeim, hjálpa til við að bera og leika sér með sandinn á svölunum sem og dótið þeirra áður en allt hvarf ofan í kassa. Þegar heim var komið var hún enn með flutningana á heilanum því til hennar sást á nærbuxunum og náttpeysu einni saman – með veskið sitt yfir öxlina og plast dollu (sem innkaupapoka) á leiðinni út um bakdyrnar og kallaði yfir öxlina á sér “ég er að fara í búðina… að kaupa kodda… fyrir Augusto!” 🙂 Hún var ekki sú eina með flutninga og þrif á heilanum því Hrefna kláraði að þrífa íbúðina þeirra Augusto og Söruh um fjögurleytið í dag og hélt áfram þegar heim var komið og hefur gengið berserksgang í íbúðinni síðan þá… Allt orðið tandurhreint og fínt hér, enda ekki seinna vænna því síðustu gestirnir nýfarnir og langt í næsta skammt. 😉
Við tókum okkur reyndar hlé á laugardeginum frá flutningum til að mæta í afmæli til Kamillu dóttur Sonju og Clint sem búa í rétt rúmri klukkustundar-akstursfjarlægð fyrir norðan okkur. Dóttir þeirra er þriggja ára og héldu þau upp á daginn með því að bjóða fjölskyldu og vinum í grillveislu.