Mánudagur 21. ágúst 2006
Þessir gríslingar!
Dóttir okkar tekur upp á ýmsu þegar hún á að reyna að sofna. Hún hefur löngum tekið upp á því að hengja teppin og sængina sína á rúmgaflinn – allt eftir kúnstarinnar reglum (þetta teppi alltaf hér, sængin alltaf hérna, o.s.frv) og sofa svo ábreiðulaus með koddann undir hnésbótunum. Þetta hefur hún að sjálfsögðu frá móður sinni sem þarf alltaf að sofa réttu megin í rúminu, með réttan kodda og sængin að snúa rétt (sængin má ekki snúa öfugt, því þá er allt ómögulegt). 🙂
Anna Sólrún gerir þetta annars allt mjög hljóðlega enda er hún örugglega búin að fatta að við hlustum eftir henni með hlustunartækinu og tökum eftir því þegar e-ð skrýtið er á ferðinni. Þetta er jú annars ágætis skemmtun þegar við förum sjálf í háttinn og komumst t.d. að því að það kvöldið datt henni í hug að taka sængurverið af sænginni og sofa með allt í kuðli.
Í kvöld, hins vegar, uppgötvuðum við að hún hafði greinilega lyft náttkjólnum upp, farið úr nærbuxunum þegjandi og hljóðalaust, tekið af sér bleyjuna, farið aftur í nærbuxurnar og lagst svo til svefns eftir að hafa hengt (þurra) bleyjuna til þerris á rúmgaflinum! Uppskar hún svo fyrir vikið sturtuferð um miðnætti þar sem hún hafði að sjálfsögðu pissað í sig án þess svo mikið sem að rumska.
Og í öðrum óskyldum Önnu-fréttum þá varð hún svolítið ósátt við leikskólann um daginn þegar eldri vinir hennar fluttust upp um bekk og henni fannst nýju unglömbin sem bættust í bekkinn ekki jafn spennandi. Þetta var á sama tíma og allt var að breytast í kringum okkur, skemmtilegustu krakkarnir (Eyþór frændi, Baldur leikfélagi og co) annaðhvort flogin til Íslands eða flutt upp um bekk og því mikið rask á sálarlífinu hjá litlum tveggja ára gríslingi. Hún tók meira að segja upp á því að gráta í hvert skipti sem við kvöddum hana á morgnana á leikskólanum, sem er mjög óvenjulegt fyrir hana.
En það breyttist þegar einn daginn sagði hún mér þegar við vorum að gera okkur klár að mæta á leikskólann: “Pabbi, ég ætla bara að gráta lítið á eftir”. Og þegar á hólminn var komið og pabbi kveður kallar mín á eftir pabba sínum hughreystandi: “Pabbi, ég þarf ekki að gráta!”. Og þar með var það afgreitt. 🙂