Föstudagur 1. september 2006
Máttur hins dökka súkkulaðis
Alveg frá því að ég hætti með Önnu Sólrúnu á brjósti þá hefur það verið mánaðarlegur viðburður að ég sökkvi í vonleysiskast og míní-þunglyndi í nokkra daga. Þetta er auðvitað bara óþolandi hormónadót og fer alveg óendanlega í taugarnar á mér, sérstaklega þegar þetta líður hjá og maður finnur muninn. Fyrir nokkrum mánuðum fann ég hins vegar “lyf”, og það fyrir algjöra tilviljun.
Þegar Sarah slasaði sig í hálsinum og Augusto var við það að verja þá skutum við yfir hana/þau skjólhúsi í tæpa viku og elduðum kvöldmat og eyddum kvöldinu við sjónvarpsgláp. Partur af skjólhúsinu var að ég passaði mig að eiga alltaf dökkt súkkulaði, enda Sarah hrifin af því og fátt betra í heiminum en smá súkkulaðimoli.
Eins og góður gestgjafi fékk ég mér líka súkkulaðimola en strákarnir létu það alveg vera, enda lítið hrifnir af svona bitru bragði. Í lok vikunnar uppgötvaði ég síðan að ég hafði siglt í gegnum mitt venjulega vonleysis-tímabil án þess svo mikið sem að dofna og gæti það í alvörunni verið að hér væri komin lausnin á mínum vanda?!
Jújú, í allt sumar hef ég fylgst með málinu og hef hreinlega fundið að þegar vonleysið sækir á þá kallar líkaminn á dökkt súkkulaði (amk 64% kakó) og það hjálpar alveg heilmikið!! Kosturinn við það er líka að það er ekki hægt að borða mikið af dökku súkkulaði, öfugt við mjólkursúkkulaði sem ég get étið út í eitt… 🙂 (Ein stelpan hérna í vinnunni gaf mér að smakka 100% kakó “súkkulaði” og það var alveg ferlegt! Það var algjörlega biturt, ekki arða af sætindum þar! En hún hakkar það í sig og finnst það eitt það besta sem til er!)
Hvað um það, í gær komst ég að því að dökkt súkkulaði er ekki almáttugt – það laut í lægra haldi fyrir kjólakaupum sem ég reyndi að framkvæma í gærkvöldi, en ég held að það hafi amk stytt kvölina, því fljótlega eftir að ég kom heim með skottið á milli lappanna þá jafnaði geðið sig og ég varð aftur “ókei”. 🙂