Sunnudagur 15. október 2006
Komin aftur frá LA
Atburðarrík vika liðin. Hrefna flaug ein á fimmtudagsmorgninum til Los Angeles á ráðstefnu með plaggatið sitt og við Anna vorum “ein heima” yfir nótt. Anna var svo yfir sig spennt að fá að fljúga að hún truflaði sögustundina á leikskólanum með því að hrópa upp yfir sig (á ensku) “ég er að fara í flugvél! Hátt! Hátt!” og sveiflaði höndunum yfir hausnum (eins og flugvél að fljúga). Við flugum svo á föstudeginum til LA og Gunnhildur náði í okkur Önnu á völlinn og Hrefna kom stuttu síðar á bílaleigubílnum sínum af ráðstefnunni þreytt en sæl.
Anna var annars frekar fyndin í flugvélinni á leiðinni til LA því hún var svo spennt að hún vissi varla hvernig hún ætti af sér að vera. Í eitt skiptið gerðist það að hún renndi upp skyggninu (?) á glugganum sínum, rak augun í risastóra flugvél fyrir utan og rak upp þvílíkan skellihlátur. Þetta var rétt eftir að flugþjónninn var búinn að segja brandara í hátalarkerfið og það komu hláturskviður frá framhluta vélarinnar í hálfa mínútu á eftir þar sem það hljómaði eins og Anna hefði verið 5 sekúndum of sein að fatta brandarann. 🙂
Við eyddum annars helginni í góðu yfirlæti hjá Gunnhildi, Orra og Helenu en Jón var á ferðalagi með Íslendinga þar sem hann tók að sér hlutverk fararstjóra og er búinn að sendast með hópinn um allar tryssur. Af öðru markverðu gerðist það að Helena átti afmæli í vikunni og fórum við út að borða til að fagna en annars slöppuðum við að mestu bara af og spjölluðum við Gunnhildi – Hrefna hlóð batteríin sín eftir stranga viku, Anna lék sér heilmikið við Helenu (elti hana á röndum og vildi helst vekja hana upp eldsnemma að morgni til) og ég skemmti mér konunglega við að dytta að hinu og þessu á heimilinu, laga baðherbergishurð (sem vildi varla lokast) og sturtuhaus og tvo krana og gott ef ekki sást einnig til mín við að sporta bleikum kvenmanns-vinnuhönskum (“I’m too sexy for this party”) við að týna glerbrot upp úr farþegasætinu á vinnubílnum hans Jóns sem brotist var inn í á dögunum til að stela útvarpi.
Við kvöddum Gunnhildi, Orra og Helenu svo í dag og flugum til baka og Augusto náði í okkur á völlinn en við eyddum svo að sjálfsögðu kvöldinu með þeim og löguðu þau kjötsúpu og bökuðu brauð í kvöldmat.