Þriðjudagur 17. október 2006
Næring og skap
Ég er alltaf að komast að því að það sem ég borða virðist hafa svakaleg áhrif á mína andlegu (og líkamlegu) líðan. Stórir skammtar af kolvetni (sykri) virðast steypa mér í vægt þunglyndis/sjálfsvorkunnar-kast og ef ég reyni að komast í gegnum heilan dag án þess að borða prótein þá verð ég að svefngengli. Fyrsti dagurinn í LA var til dæmis ekki beinlínis gæfulegur því að morgumaturinn var kolvetni (seríós) með mjólk, morgunmatur #2 var meira kolvetni (skonsa) plús ávextir, ég sleppti hádegismat en fékk mér mokka-kaffi og kolvetni (múffu) um te-leytið.
Mokkað (eini kaffidrykkurinn sem ég get drukkið) virkaði varla og ég hélt áfram að svefngenglast í gegnum daginn alveg fram að kvöldmat þegar við fórum út að borða og fékk mér fisk. Kættist þá efnabúskapurinn og skapið líka. Mig minnir að ég hafi verið búin að uppgötva þetta áður, en það er svo langt síðan að ég borðaði svona illa að ég var barasta búin að gleyma þessu!
Til að hamra inn þetta með næringu og skap og allt, þá var mér bent á grein í Guardian í dag sem fjallar tengslin á milli næringar og ofbeldis.
Nú er ég bara að rétta mig af eftir ráðstefnuna. Vann líklega aðeins yfir mig (var kannski ekki svo mikið að vinna vinna, heldur meira undir stanslausri andlegri pressu) svo núna er ég að reyna að safna orku og búa mig undir næsta vesen sem er að skrifa “grein”. Bleh.
Á meðan er Anna Sólrún kát og ensk. Kíkti á hana áðan þar sem hún var nýsofnuð. Var mín þá ekki búin að ná í alla fjóra koddana og stafla þeim upp við gaflinn sinn, og hún lá hálfsitjandi á þeim með opna bók í fanginu. Afskaplega krúttleg. Hún er alltaf glöð með að fara á leikskólann og glöð að fara heim, þó svo að stundum haldi ég að það sé bara út af því að hún fær snakk-bolla með seríósi og öðru “kolvetni”. Ég held að hún sé jafn kolvetnis-óð og ég…