Mánudagur 11. desember 2006
Lykillinn virkar ekki lengur!
Smá fréttir af fyrirtækinu mínu… Við höfum undanfarnar vikur verið að leita að nýju fjármagni þar sem núverandi fjármagn fer að klárast. Allt í lagi með það, nema hvað í morgun þegar ég mætti var búið að innsigla starfsmannainnganginn og þekja glerið í hurðinni með korki!
Þetta reyndist sem betur fer ekki tengt skorti á fjármagni heldur var nýi forstjórinn búinn að senda út fyrirskipun um Feng Sui-væðingu fyrirtækisins! Sem sagt, þá kom fyrirskipun um að öllum starfsmönnum skyldi úthlutað nýjum lyklum og bent á að fara að nota þjónustuinnganginn í stað þess að nota hurðina sem hingað til hafði verið starfsmannainngangur. Ef ég skil rétt er þetta til þess að grípa orkuna sem kemur inn um aðaldyrnar (hér eigið þið að veifa höndum kaldhæðnislega) og passa upp á að hún sleppi ekki út um starfsmannainnganginn sem eru dyrnar sem eru beint á ská á móti aðalinnganginum (muna að sveifla höndunum og veifa orkunni í rétta átt).
Ekki nóg með það, heldur erum við enn að finna alls konar kristalla, dýr og fígúrur í litlum gegnsæum kössum í hinum ýmsu krókum og kimum innan fyrirtækisins (hvítt keramik jólatré í anddyrinu), yfirleitt með áföstum gulum miðum sem á stendur “Bannað að snerta! Takk, forstjórinn”. Að sjálfsögðu þurfti líka að líma fyrir ákveðnar rafmagnsinnstungur sem trufluðu kristallana en þeir þurfa víst kyrrð og ró, þessi litlu grey.
Þegar í básinn minn var komið blasti við græn bambusplanta sem búið var að koma fyrir á einni hillunni með þeim leiðbeiningum að hana mætti alls ekki snerta – sem líklega þýðir að það megi ekki vökva hana heldur því forstjórinn sagðist ætla að taka það að sér. Og þegar ég segi að það sé búið að koma henni fyrir þá meina ég koma henni fyrir. Það er búið að líma pottinn sem plantan er í fasta við hilluna.
Nú er bara að sjá hvort þetta hafi jákvæð áhrif á fyrirtækið. Þetta er búið að hafa mismunandi áhrif á starfsmennina. Tölvuþjónustu-gaurinn okkar (sem fékk að útfæra þetta fyrir forstjórann) gengur um fyrirtækið og svarar öllu á einn veg: “ekki spyrja”. Sá sem situr við hliðina á mér er núna að rannsaka hvað hann getur gert við básinn sinn til að verjast Feng Shui innrásinni og er kominn með kaktus á tossalistann, sem á víst að vera slæmt “tsjí” þar sem gaddarnir stinga göt á orkuna sem flæðir um…
Ég ætla að láta mér nægja að kíma og fylgjast með. Þetta er hinn besta skemmtun! 🙂