Sunnudagur 17. desember 2006
Komin á heimaslóðirnar
Við erum mætt, galvösk. Við héldum upp á afmæli Önnu á leikskólanum á föstudeginum, þar sem Anna hafði verið þvílíkt spennt allan daginn og söng öðru hverju “Happy holidays, to me… Happy holidays, to me!” 🙂 Síðan var rokið heim, þvegið, pakkað, tekið til og allt gert klárt. Við Hrefna vorum að til tæplega 2 um nótt og vöknuðum svo kl. 4:30 (tveimur og hálfum tíma síðar) og Snorri keyrði okkur út á flugvöll en hann gistir í íbúðinni á meðan hann er í Kaliforníu.
Flugin gengu vel; voru að mestu tíðindalítil fyrir utan tvö atvik. Það fyrra var á leið til Minneapolis, þar sem leiðindapúkinn fyrir aftan mig hóf flugið á því að græta 10 ára gamla dóttur sína með því að tuða sífellt í henni um ábyrgð og vanþakklæti. Til að bæta gráu ofan á svart var hún sennilega nýkomin úr uppskurði á vinstra eyra (eða nálægt því svæði) því hún var með sárabindi vafin um hausinn. Þegar vélin var komin í loftið hallaði ég sætinu aftur á bak og tók ég þá strax eftir því að hann var farinn að sparka eða ýta í bakið á mér á tveggja til þriggja sekúndna fresti. Þegar ég var að því kominn að snúa mér við og biðja hann að hætta, varð hann fyrri til og bankaði í öxlina á mér og bað mig vinsamlegast að setja bakið upp, því hann væri með svo langar lappir og kæmist ekki lengur fyrir (sem er írónískt því ég er með lengri lappir en flest allir sem ég þekki og hef aldrei þurft að biðja fólk að setja bakið upp). Ég er annars orðinn svo mikill feng shui meistari (sjá 11. des hér að neðan) að ég lét þetta ekki á mig fá, heldur færði bara bakið upp, lagði þumalfingur á löngutöng hvorrar handar, hummaði ‘óóóóóóómmmm’ og óskaði honum hlutverki kameldýrs í næsta lífi.
Hitt atvikið var öllu skemmtilegra og gerðist í Flugleiðavélinni þegar Anna Sólrún spennta (búin að tala um þessa ferð í nokkrar vikur) leit upp þegar flugfreyjan hóf að tala á íslensku í hátalarakerfinu og hrópaði hátt og snjallt af mikilli einlægni, innlifun og gleði: “ÍSLAND!!!!” og fólkið í kringum okkur fór að hlægja.
Annars gekk þetta bara vel. Hún svaf smá (og við líka) og stóð sig eins og hetja. Var reyndar aðeins orðin súr í bragði við lok seinni flugferðarinnar þar sem hún fékk bakþanka og bað um að fá að snúa við og halda heim á leið til Bandaríkjanna aftur. Þá var hún orðinn þreytt á ferðalaginu og að þurfa að sitja kyrr svona lengi. Hún tók þó gleði sína á ný eftir að hafa fengið að lúlla í Álmholtinu og borða morgunmat með Steinu, Ömmu og Afa Mosó og Afa “Langa”.