Laugardagur 23. desember 2006
Úr öskunni í eyrnabólguna
Anna Sólrún var með hita á fimmtudaginn líka svo við vorum bara heima, fyrir utan smá snatt hjá mér. Á föstudeginum var hún hitalaus á köflum, svo við ákváðum að bjarga geðheilsunni og fara nú út fyrir hússins dyr og buðum okkur í kvöldmat hjá Öddu og Halla. Þar léku Anna Sólrún og Hildur Sif sér saman eins og mestu mátar og allt gekk vel.
Klukkan tvö í nótt vaknaði Anna Sólrún hins vegar upp grátandi. Okkur tókst að hugga hana og hún sofnaði skjótt aftur, en 10-20 mín seinna vaknaði hún aftur. Við héldum fyrst að hún væri svona hrædd við vindhljóðin, en það gnauðaði í öllu húsinu. Eftir annað uppvaknið héldum við að við hefðum nú náð tökum á vindhræðslunni, en hún vaknaði í þriðja skiptið og kvartaði þá undan eyraverk.
Nú voru góð ráð dýr því að það var ekki til neitt barna-parasetamól í húsinu. Við ákvaðum því bara að vona það besta, en þó fór það svo að hún hélt áfram að vakna hágrátandi á 10-20 mín fresti það sem eftir lifði nætur. Í morgunsárið fletti ég því upp að læknavaktin opnar klukkan 9, en áður en við lögðum af stað á Smáratorgið benti Anna amma okkur á að það er sólarhringslæknavakt í Mosfellsbæ.
Við Önnurnar héldum því þangað (Finnur var skilinn eftir heima, enda ósofinn með öllu) og þar kom í ljós að eyrun voru svo full af merg að ekki sást neitt í neitt. Læknirinn reyndi að ná mergnum út en það gekk treglega því hann var svo mjúkur og Anna Sólrún fékk hræðslukast við eyrnaryksuguna, enda illa sofin og greinilega veik.
Hún sagði þegar hún var spurð að henni væri illt í eyranu og benti á vinstra eyrað. Það varð því úr að við fengum lyfseðil upp á sýklalyf og eyrnadropa til að losa um merginn. Þá fórum við heim, en skömmu seinna fór Anna amma út í apótek (sem opnaði ekki fyrr en 10) og náði í góssið. Það kom í ljós að fljótandi parasetamól (sem við notum í USA) fór illa í dömuna sem ældi öllu saman, svo Þórarinn afi var sendur út í apótek að kaupa stíla.
Eftir að sýklalyf og stíl sofnuðum við loksins svefni hinna réttlátu og sváfum til 4 í dag. Um kvöldmatarleytið stungum við Finnur svo af í matarboð til Hollu og Óla, og skildum parasetamól-káta Önnu Sólrúnu eftir hjá ömmu og afa. Hún hafði það víst afskaplega gott og stóð sig vel og núna er hún nýsofnuð, vel lyfjuð og við vonum að það dugi fram til morguns… því þá eru komin jól!!