Þriðjudagur 16. janúar 2007
Næstum-frídagur
Það var hálfgerður frídagur í gær, einn af þessum “kannski”-frídögum hérna í USA. Með því á ég við að það eru víst engir “lögbundnir” frídagar í USA, bara góðviljaðar ábendingar um hvaða daga fyrirtæki sjálf ættu að skilgreina sem frídaga. Þannig var Anna Sólrún til dæmis í fríi, ásamt póstburðarmönnum og fleiri ríkisstafsmönnum, en Finnur var ekki í fríi.
Þar með var ég því víst líka í “fríi”, en flestar áætlanir um stórkostlegan dag í dýragarði eða einhvers staðar álíka fóru út um þúfur þegar okkar ástkæra dóttir pissaði í rúmið okkar (aðra nóttina í röð) um morguninn. Við erum sem betur fer með ofur-lak sem ekkert lekur í gegnum, en ofurlakið er erfitt í þvotti, því að bara partur þurrkast í einu í þurrkaranum (lakið er vatnshelt!) og maður þarf alltaf að taka það út reglulega til að setja nýtt svæði í þurrkun. Þvotturinn tekur því óhemjutíma (tvær og hálfa klst!)… og þar með hálfur dagurinn farinn! 🙂
Fyrri parturinn á deginum fór sem sagt í þetta stúss, en eftir smá lúr þá fórum við í dótabúð til að klára að kaupa síðustu jólagjafirnar hennar Önnu Sólrúnar, en hún hafði fengið eyrnamerktan pening frá ömmu sinni og afa í Mosó, svo og afa langa. Á eyrnamerkingunni stóð “dúkkuhús” svo við fórum í uppáhalds-dótabúðina okkar og fundum þetta fína hús. Þetta hús er partur af línu sem heitir “Calico Critters” í USA (“Sylvanian Families” annars staðar) og í staðinn fyrir “mennskar” dúkkur, þá fyllir maður húsið af litlum sætum dýrum og húsgögnum fyrir þær. Við keyptum kanínu-fjölskyldu, kanínu-litlu börn, ungbarna-húsgögn, kojur og garðhúsgögn. Sem stendur er Anna Sólrún alveg hugfangin af nýja dótinu, sérstaklega ungbarnakerrunni, og svo öllu litlu hlutunum sem fylgja með, eins og t.d. ör-disk með mat á og ör-gaffli sem fylgir með. Það er gaman að vera þriggja ára! 🙂