Mánudagur 29. janúar 2007
Ikea-helgi
Það virðist sem að við Finnur séum með öfug gestagen. Til dæmis myndu allar heimlismæður sem ég þekki taka til áður en það er von á næsturgesti/gestum, en við Finnur tökum alltaf til EFTIR að gesturinn/gestirnir eru farnir. Þannig fékk Guðrún að gista í miðju draslinu í dótaherberginu hennar Önnu Sólrúnar, en sama dag og hún fór lögðum við leið okkar í Ikea og keyptum loksins hirslu undir mesta dótið, og skiptum um gardínur í leiðinni. Í algjöru orkukasti stytti ég meiri að segja gardínurnar (samdægurs!) þannig að þær ná bara rétt niður fyrir gluggann og eru því ekki allar kramdar á bak við dótakassa eða nýju hilluna eins og gömlu gardínurnar.
Þetta er svipað og þegar Gunnhildur og fjölskylda komu í heimsókn um árið og húsið var hreinlega á hvolfi! Reyndar hafði ég náð að fara í gegnum handklæðaskápinn (svartholið á efri hæðinni) sem gerði mig káta, en allt draslið hennar Önnu Sólrúnar var á neðri hæðinni og gersamlega huldi stofuborðið. Það stóð heima að þegar gestirnir fóru, þá var tekinn skurkur og allt fært á betri veg. Svona er þetta víst! 🙂