Þriðjudagur 30. janúar 2007
“Það er krem á bókinni”
Við erum þessa dagana að reyna að koma smá reglu á svefnvenjur dóttur okkar eftir Íslandsferðina. Þetta hefur svo sem ekki verið mjög slæmt: eftir tannburst, eina bók og eitt lag má hún lesa sjálf í rúminu þangað til hún sofnar. Þetta virkaði mjög vel fyrir Íslandsferðina (hún var yfirleitt sofnuð á innan við hálftíma), en eftir að við komum til baka hefur hún “tafið lopann” þangað til klukkan er langt gengin í hálf-ellefu, hún úrvinda og búin að biðja um að fara á klósettið fjórum sinnum á kvöldi.
Í kvöld var svipað upp á teningnum, nema hvað rétt fyrir tíuleytið kom allt í einu löng þögn og héldum við að hún væri sofnuð – þangað allt í einu að hún kallar niður: “uh oh… það fór krem á bókina”.
Ég stökk upp og fann dóttur mína í rökkrinu í rúminu okkar, með Ólaf Jóhann í fanginu og D-vítamín kremtúpu móður sinnar í höndinni (löng saga). Og jú jú, það stemmdi – framan á kápunni lá ein rönd af vaselínkenndri lengju sem hún hafði kreist út úr túpunni sem er á stærð við frekar stóra tannkremstúpu.
Nú, ég tók til við að þrífa í frekar lélegri birtu (sem lagði inn af ganginum þar sem ég vildi ekki kveikja ljósið inni hjá henni). Við þetta tækifæri fannst mér við hæfi að reiða af hendi föðurlegar ráðleggingar um að þetta væri nú ekkert til að leika sér með og kláraði að þrífa kremið af kápunni eftir bestu getu. Heyrðist þá í minni: “það er líka hérna…” og rétti fimm fingur upp í loftið hver öðrum klístrugri af vaselín-kremi. “Hananú!?”, heyrðist í mér – “hvað ERTU búin að gera?!?” og hljóp inn á bað að ná í stórvirkari vinnuvélar (blautan klút) áður en hún næði að klístra þessu út um allt!
Þegar ég lýk við að þrífa fingurna heyrðist í minni: “það er líka meira hérna…” og setur stóran stút á munninn sem var alsettur vaselíni upp á nef og niður á höku. “Heyrðu, nú mig, Anna Sólrún! Þetta er ekki sniðugt!!”, sagði ég (en fann að ég mátti hafa mig allan við að fara ekki að skellihlægja!) 😀
Stuttu síðar var hún komin í rúmið og innan við hálftíma síðar var hún sofnuð, enda hefur hún kannski vitað upp á sig skömmina! 🙂