Sunnudagur 11. febrúar 2007
Dublinar-afmæli
Við fórum í dag í afmæli til Ölmu Hildar í Dublin (Kaliforníu) og skemmtum okkur mjög vel. Önnu Sólrúnu leist reyndar ekkert sérstaklega á allar þessar stóru 7 ára stelpur, en var ekkert smá ánægð með dúkkuflóruna í herbergi heimasætunnar og var sérstaklega hrifin af dúkku-jogging-kerrunni! 🙂
Vikan flaug annars hjá að vanda. Sem betur fer veiktist Anna Sólrún ekkert að ráði, var víst orkulaus einn daginn á leikskólanum, og núna er hún með smá hor í nös, en það er ekki nóg til að kippa sér upp yfir.
Hápunktur vikunnar var líklega þegar við opnuðum pakka frá Amazon í Frakklandi, sem innihélt fjórar Barbapabba bækur – á frönsku að sjálfsögðu! Ég fór nefnilega á stúfana um daginn að leita að fleiri Barbapabba bókum eftir að Anna Sólrún fékk fyrstu bókina í jólagjöf, og komst að því að þær voru almennt séð ekki til á ensku nema fyrir formúu af peningum. Ég fór því yfir á franska amazon og þar voru þær allar til á um þúsundkall stykkið með sendingarkostnaði!
Sem betur fer eru þetta fá-orðaðar bækur, myndirnar segja manni allt, svo að franskan er ekki mikið að þvælast fyrir okkur. Hins vegar var gaman að skoða bækurnar aftur og rifja upp allar myndirnar sem maður hafði skoaðað gazilljón sinnum sem krakki. Ég sé hins vegar núna að þetta eru alveg brjálæðislegar hippa/vinstri grænar bækur. Ég er ekki viss um að ég hafi alveg skilið alla iðnvæðingar-, umhverfismála- og barnauppeldis-ádeiluna sem var greinilega mjög ofarlega í huga höfundanna strax árið 1971!