Fimmtudagur 15. febrúar 2007
Veikur strumpur
Í dag var dagur númer tvö þar sem Anna Sólrún var heima vegna veikinda. Á þriðjudaginn kom hún heim kát úr leikskólanum, en fór svo hratt niður á við í heilsu, át ekkert og var sofnuð klukkan 19:30. Um ellefu-leytið sama kvöld vaknaði hún svo og eftir klósettferð og mjólkursopa lagðist hún í rúmið og ældi.
Það gerðist ekkert meira markvert þá nótt, en morguninn eftir kúgaðist hún og fékk þar með bara kók að drekka það sem eftir lifði morguns. Finnur var heima fyrir hádegi og þvoði af rúminu og passaði hana svo að ég næði að vinna örlítið. Sú stutta varð brattari þegar leið á daginn og líklega bara með nokkrar kommur.
Í nótt sem leið var hún hins vegar orðin heit, og mældist með 38.6 stiga hita áður en við gáfum henni stíl á íslenska vísu. Þar með var leikskóladagur númer tvö út úr sögunni, en nú gat Finnur ekkert verið heima því hann var á fullu í vinnunni.
Við mæðgur vorum því bara heima í dag. Það var púslað og minnisspilað og lagt sig og horft á sjónvarpið (mikið svakalega eru allir ávextirnir í Ávaxtakörfunni reiðir og leiðinlegir!) og í lokin perluðum við. Allt í allt þá var mín bara spræk, en svoldið veik til augnanna, og það stóð heima að hún var með 38.8 stiga hita um fjögurleytið í dag svo ekki fer hún á leikskólann á morgun (þeir eru með “heil heilsu í 24 tíma” skilyrði fyrir endurkomu eftir veikindi).
Sem betur fer ætti aðeins að hægjast hjá Finni eftir morgundaginn, enda 3ja daga helgi fyrir höndum og ég er ekki alveg viss um að ég meiki miklu fleiri daga innilokuð í litla kofanum okkar…