Fimmtudagur 8. mars 2007
“Ég er ekki lítil lengur, ég er stór!”
Undanfarna daga hefur uppáhalds lesefni Önnu Sólrúnar verið ljósmyndamöppurnar okkar. Sérstaklega er hún hrifin af bleiku möppunni og fjólubláu möppunni. Í þeirri bleiku eru myndirnar frá því að við fórum á spítlann til að eiga hana og svo tvær vikur þar á eftir, og í þeirri fjólubláu heldur sagan áfram í mánuð eða svo.
Hún fer samviskusamlega í gegnum möppurnar og bendir á sjálfa sig, svo og foreldra sína og aðra sem birtast hér og þar. Henni finnst þetta alveg svakalega merkilegt, sérstaklega það að hún skyldi ekki kunna að ganga og að blái ömmustóllinn sem hún notaði mikið sé ennþá að flækjast um í stofunni okkar. Svo tilkynnir hún reglulega að hún sé ekki lítil lengur, hún sé stór! 🙂
Dagurinn gekk annars ágætlega. Við skutluðum Önnu í sitt fyrsta “playdeit” án okkar, en hún hljóp um hjá Noruh fram yfir hádegismat. Á meðan kláraði ég að klambra saman plaggatinu mínu, nú er stefnan tekin á útprentun á morgun. Finnur náði svo í hana og kom með hana heim þar sem ég tók vaktina. Sú ekki-litla samþykkti að lokum að fara að hátta (tók því illa að vera neitað um fjólubláu möppuna) og gjörsamlega steinrotaðist.
Mér tókst með erfiðleikum að vekja hana um 17:30 og þá röltum við mæðgur út í búð, ja, ég rölti og hún hjólaði. Það var ágætis hreyfing eftir langa veru inni við. Það er nefnilega komið Kaliforníu-veður í Kaliforníu (20 stiga hiti), hvort það eigi ekki bara að vera hitabylgja um helgina?! 🙂