Föstudagur 16. mars 2007
Strandaglópar í NY
Það var von á Hollu, Óla og Ágústu hingað til okkar um hádegisbilið í dag, en JetBlue er víst búið að fella niður öll flug í dag frá New York vegna veðurs. Þeir lentu svo svakalega í því um daginn þegar það kom vont veður og fólk var fast í flugvélunum þeirra í 10 tíma á flugvellinum, að núna eru þeir greinilega algjörlega búnir að skipta um verklag og farnir að aflýsa flugum frekar en að hætta á flugvallarbið.
Í gær leit út fyrir að þau myndu lenda í kvöld, en núna er von á þeim á sunnudagskvöldið! Það er hálfgerð synd því þá missum við að einni helgi með þeim, en höfum samt tvær aðrar eftir.
Á meðan er ég búin að vera að vesenast í bílaleigumálum fyrir þau. Í gær nefnilega fór ég á netið (með Óla í símanum frá NY) og fann þennan líka svakalega góðan leigudíl fyrir þau. Ég er ekki að grínast með það að á hálftíma lækkaði verðið á bílnum um amk 10 þús íslenskar!
En svo þegar ég fór að grúskast í því að breyta bókuninni í morgun, þá auðvitað hækkaði verðið! Ég hringdi svo í bílaleiguna, og fékk að vita að þeir voru til í að seinka “pick-up” fram á sunnudaginn og að ég geti náð í bílinn og bætt svo Óla við sem ökumanni þegar hann lendir – og haldið uppsettu verði. Þannig að það virðist sem að þetta ætli allt að reddast.
Ég vona bara að litla fjölskyldan eigi eftir að eiga notalega dvöl í New York fram á sunnudaginn!!! 🙂