Laugardagur 31. mars 2007
Sull-dagur
Nú er klukkan að verða 9 að morgni til og við Hólmfríður erum að gera okkur ferðabúnar með börnin. Drengirnir stungu af klukkan átta í morgun niður á strönd (tveggja tíma akstur þangað) til að fara að kafa. Þar sem það er skítakuldi á ströndinni fram til hádegis, þá ætlum við stelpurnar að keyra í rólegheitum til Gilroy í svona “outlet” kringlu og mæta síðan niður á strönd fljótlega eftir hádegi.
Anna Sólrún var ekki alveg sátt við að pabbi sinn færi án sín, en svo vaknaði Ágústa María og síðan þá hefur hún ekki vikið frá hlið hennar. Hún er orðin sérlegur hjálparkokkur sem nær í dót sem fer á gólfið og klappar þeirri litlu á kollinn þegar hún æsir sig.
Reyndar hefur komið upp smá árekstur á milli Ágústu Maríu “stelpu” og Ágústu Maríu “dúkku”, en ef dúkkan er í innirólunni þá verður að vekja hana í rólegheitum áður en Ágústa María “stelpa” má nota hana. Anna Sólrún er sum sé ekki alveg með forgangsröð þeirra fullorðinna á hreinu! 🙂
Ég stoppaði aðeins við á leikskólanum í gær og talaði við eina sem vinnur þar. Hún ráðlagði okkur að reyna að bíða fram á sjötta mánuð til að segja frá tilvonandi systkinum, því að mánuðir eru langir a líða og þetta verður á heilanum á henni þar til þá. Við munum nú bara eftir því hvað Íslandsferðin (Ég er að fara í flugvél! Afmæli!) festist í hausnum á henni…!
Og já eitt annað, ef ég næ að verja í sumar, þá á ég ennþá eftir að klambra saman ritgerðinni sjálfri sem getur tekið ár og öld, sérstaklega með mínum prófessor, sem er afskaplega smámunasamur og ákveðinn með hvað hann vill. Á móti kemur að ég held að við getum frestað flutningum fram í ágúst, svo það ætti ekki að rústa sumrinu.