Mánudagur 2. apríl 2007
Gestirnir farnir
Jæja, þá eru Óli, Hólfríður og Ágústa María farin og heimilið mun fátæklegra fyrir vikið… 🙁 Þetta eru búnar að vera stuttar en mjög skemmtilegar tvær vikur sem þau voru hérna í heimsókn hjá okkur og ekki amalegt að fá svona gesti í heimsókn sem einfaldlega taka yfir heimilið; maður kemur heim úr vinnu/skóla og þá eru þau búin að taka til, ryksuga, kaupa í matinn og bara verið að elda fyrir mann. Maður fær varla betri gesti í heimsókn og er mikil eftirsjá af þeim öllum.
Þó að lítið sé búið að blogga nýlega erum við búin að gera ýmislegt saman: mínígolf í Sunnyvale, köfun í Monterey, ökuferð norður upp ásinn, vínsmökkun í Russian River Valley, fara út að borða, elda góðan mat saman, slappa af, spila Dance Dance Revolution og Wii með Augusto og Söruh, farið út að leika með börnunum og verslað í bæði Great Mall og Gilroy (hvítlauks-höfuðborg heimsins).
Ferðinni þeirra (hjá okkur) lauk svo á nákvæmlega sama hátt og hún byrjaði: með Spot Pizzu í kvöldmat og óvæntum útsýnisbíltúr um iðnaðarhverfi Oakland – en það rifjaðist upp fyrir okkur að þegar þau komu fyrir tveimur vikum villtumst við líka um Oakland á leiðinni frá bílaleigustöðinni (í þetta skipti í öðrum bæjarhluta þó) 🙂