Önnu-blogg
Anna Sólrún stækkar, þroskast og vitkast með hverjum deginum. Núna um helgina kom hún okkur á óvart því hún er búin að læra að róla alveg sjálf – og það frá kyrrstöðu! Það hjálpar henni óneitanlega að hún er hávaxin og nokkuð vöðvamikil (öfugt við eina vinkonu sína sem er álíka há, en miklu fíngerðari í vexti) þannig að þegar hún sveiflar fótunum og líkamanum þá er heilmikill massi á ferð.
Sama dag og hún rólaði í fyrsta sinn ein, þá fór ég með hana í fjórða sundtímann. Í þetta sinn sat hún á bekknum við laugina í smá stund og bað um að fá að “hugsa sig um” en mér tókst að leiða hana að bakkanum. Þegar fæturnir voru komnir í vatnið og uppáhaldskennarinn mættur að setja á hana fótblöðkur þá slakaði hún aðeins á, og samþykkti síðan mótmælalaust að fá svona “lyftingarstangar”-flotholt. Það eru flotholt sem eru með hringlótta korka á hvorum endanum á mjórri stöng sem fer undir handarkrikana á krökkunum.
Hún síðan skemmti sér konunglega við að elta dót í lauginni, en þegar kom að því að bíða við bakkann eftir að kennararnir gerðu trikk með hinum strákunum tveimur, þá fannst henni ekki eins gaman. Það hjálpaði þó þegar ég benti henni á að hún gæti hent dóti sjálf og náð í það og hún dundaði sér við það dágóða stund. Hún fór tvisvar í kaf með kennaranum og fékk almennt hrós fyrir góðar framfarir.
Við fórum svo með henni í sund á mánudeginum (þá var frídagur) því að það var víst kalt við ströndina. Með okkur var Ödu-fjölskylda og þá kom vel í ljós að sundtímarnir hafa gert Önnu gott. Hún hékk á svona “núðlu”flotholti og svamlaði um alla laug að ná í dót og flýja vatnssprautur frá pabba sínum á meðan vinkona hennar hélt sér dauðahaldi í pabba sinn. Nú er bara að reyna að kenna Önnu að sparka betur í vatninu, hún á það til að fara beint í hundasundsfóttökin en markmiðið er að kenna þeim meira skriðsundsfótatökin svo þau liggi betur í vatninu.
En það er ekki allt, því þessa dagana erum við í heimsóknum í næsta bekk fyrir ofan núverandi bekk á leikskólanum. Á föstudeginum fórum við í fyrstu heimsóknina og vorum svo snemma í því að hún var með alla stofuna fyrir sig í nokkrar mínútur. Hún skoðaði sig ágætlega um og mér sýndist henni lítast ágætlega á þetta. Það hjálpaði að hún kannast við nokkra krakka í bekknum, t.d. lék hún lengi vel með honum Felix sem hefur verið með henni í bekk af og á yfir árin.
Í dag fórum við aftur en núna í síðdegisheimsókn, og þá var hún minna hrifin. Það hjálpaði ekki að fljótlega eftir að hún fór út í garðinn að leika, þá datt hún og hruflaði á sér hökuna og hálsinn en almennt séð þá eru krakkarnir stærri en í gamla bekknum, leika sér harðar og stelpurnar eru í sínum grúppum sem erfitt er að komast inn í. Ég veit ekki hvort það á eftir að hjálpa en ein vinkona hennar úr gamla bekknum á að fara upp um bekk með Önnu á mánudaginn. Sú virtist ennþá skeptískari en Anna Sólrún á þetta allt saman svo það kom ekki á óvart að þær tvær hengu saman meiripart heimsóknarinnar.
Við erum ennþá ekki “opinberlega” búin að segja henni af tilvonandi fjölskyldufjölgun, en hún talar um að vera stóra systir og að eiga stelpu og strák. Satt best að segja höfum við ekki hugmynd um hvað hún heldur eða veit, hún amk sýnir bumbunni engan áhuga (“þú ert með stóran maga” sagði hún þegar ég kom frá Íslandi – en ég hummaði það fram af mér og þar með var það afgreitt), en virðist hafa lært það núna að mamma er ekkert sérstaklega spræk þessa dagana og alltaf á klósettinu og það vekur enga undrun.
Þetta eru samt ekki allar breytingarnar, því að eins og við bjuggumst við þá fengum við ekki inni á kampus í húsnæðislotteríinu. Það er von að við skríðum inn á biðlista seinni part júlí, en ég er ekki viss um að ég vilji bíða svo lengi. Þannig að við (ég) erum farin að hanga á leigulistum og hringjandi út um hvippinn og hvappinn. Það er mikil eftirsókn eftir húsnæði og því er víst áríðandi að vera vakandi.
Það gæti verið að þetta endi allt ágætlega, við ættum að geta komist fyrir í 2ja svefnherbergja íbúð ef herbergin eru nógu stór, en trikkið er að finna íbúð sem er nálægt kampus (til að skutla Önnu á leikskólann) sem er ekki ógeðslega dýr eða í miður skemmtilegu ástandi. Ég er til dæmis á því að leigja ekki íbúð sem er með teppi undir eldhúsborðinu eða án uppþvottavélar. Við megum samt búast við því að borga amk $2000 á mánuði plús mínus einhverja hundraðkalla. Það er dágott stökk frá $1450 sem er það sem við borgum núna, en 3ja herbergja íbúð á kampus væri $1800.
Á meðan á öllu þessu stendur þá er ég að rembast við að fínpússa pappírinn minn. Nú er proffinn búinn að vera með hann í næstum þrjár vikur, en ég heyrði af því í dag að hann sé loksins byrjaður að lesa og ég ætti að fá kommentað eintak í hausinn á föstudaginn. Þá hef ég engar afsökun lengur til að slóra við þetta. Á meðan tek ég lífinu með frekar mikilli ró, hef bara haldið mig heima síðan í síðustu viku, með fartölvuna uppi í rúmi og hef sofið tveggja tíma dúr á hverjum degi í viku núna.
Finnur virðist bara kátur í nýju vinnunni, sem stendur er hann að mæta frekar snemma en kemur heim á skikkanlegum tíma. Svo verð ég nú að skrásetja það að Sarah og Augusto komu í heimsókn í kvöld, borðuðu með okkur kvöldmat og síðan var sest við pinocle spil. Í fyrstu höndinni fékk Sarah röð, fjóra ása OG tvöfalt pinocle (!!!!!! hefur aldrei gerst áður, að fá bara eitt af þessu þykir mjög gott) sem þýðir að við fengum heil 65 stig áður en við svo mikið sem byrjuðum að spila!
Þetta var nú ágætt því við stelpurnar höfum ekki beinlínis verið heppnar í pinocle undanfarna mánuði, yfirleitt endað vel í mínus eða svona siglandi um núll-punktinn, yfirleitt tvö til þrjúhundruð stigum á eftir strákunum. En í þetta sinn gekk okkur súpervel og Sarah raðaði inn hverri ofurhöndinni á fætur annarri. Þar með hefndum við fyrir okkur að strákarnir voru báðir fastir við fínu gúgul fartölvurnar sínar allan leikinn á meðan verið var að stokka og útdeila spilum. Þvílík ókurteisi!! 😉
En þar með held ég að ég slái botn í blaðrið og fari að sofa!