Dagur 8: Fyrirbura-rannsókn kynnt
[Quiet day on the leaky front, probably because I’m full of gas, which is blocking stuff! The day’s collection exited around dinner time and now it’s slowly filling up again I guess. The director of research stopped by to introduce a preemie study they’re doing, which we’re considering participating in. We’ll see. Now if I could only get my digestive system up and running… sigh…]
Hér er ég enn og dagur átta að líða undir lok. Meltingarkerfið er ennþá að stríða mér og ég var öll uppþemd og full af lofti í dag. Gafst upp og tók losandi töflur og ætla að sjá hvað þær gera. Þrýstingurinn virtist loka fyrir lekann bróðurpart dags og en núna í kvöld þá kom það út sem hefði annars seitlað í rólegheitum yfir daginn. Sem stendur virðist þetta vera rólegt og í sæmilega föstum skorðum. Sjö níu þrettán…
Í dag gerðist það helst markvert að til mín kom kona að kynna fyrirbura-rannsókn sem er í gangi á spítalanum. Ef krakkalingarnir koma í heiminn á milli 24-28 viku þá eru þeir gjaldgengir í rannsóknina, en að sjálfsögðu er markmiðið að reyna að draga fæðingu fram yfir þann tíma.
Hvað um það. Þeir eru að rannsaka tvennt aðallega. Ef fyrirburi kemur í heiminn og andar að sjálfsdáðum, þá er það starfsregla á þessum spítala að setja þá samt í öndunarvél en á sumum öðrum spítölum er starfsreglan sú að byrja á að setja slöngur upp í nefið til að halda lungunum rétt opnum, en að láta barnið sjálft um að anda.
Hitt sem verið er að rannsaka er hvaða súrefnismagn í blóði skal stefna á hjá fyrirburum. Það er vitað að of mikið súrefnismettun getur valdið augnskaða hjá fyrirburum, og markmiðið er að rannsaka hvort að það komi betur út (fyrir sjón og almenna heilsu) að halda börnum í nálægt neðri mörkum þess sem telst ásættanlegt, eða efri mörkum. Hún reyndar sagði að almennt séð væri erfitt að stjórna súrefnismettuninni og að hér sé verið að tala um meðaltöl.
Finnur kom svo í heimsókn eftir hádegi í dag (búinn að koma alla þessa viku, þessi elska 🙂 og konan kom aftur og endurtók kynninguna fyrir hann. Það virðist sem að það sé ekkert hættulegt við að taka þátt í þessu, rannsóknin er búin að vera í gangi í 3 ár held ég og það hefur ekki verið sýnt á þeim tíma að einhver aðferðin sé afgerandi betri/verri en hin. Hér er víst verið að reyna að negla niður hvað sé í raun besta leiðin, því að sem stendur eru staðlarnir byggðir á því sem fólki hefur virst virka best, án þess að hafa neinar raunverulegar “sannanir” fyrir því. Þetta á víst við um margt fleira í umönnun fyrirbura.
Hvað um það, við vorum amk jákvæð um að taka þátt, erum með nokkrar spurningar í viðbót en líst ekkert illa á möguleikann.
Ég held áfram að fá gesti í hádegismat sem er skemmtileg tilbreyting. Finnur og Anna voru hins vegar bara heima í kvöld með gesti, en þau komu í gær. Þá var eiginmaður og 2ja ára stelpa herbergisfélagans líka í heimsókn og Anna og litla stelpan léku sér heilmikið saman og vildu sem minnst vita af þessum rúmliggjandi (og þar með notlausu) mæðrum sínum. Þetta var svona svipað og með kettina sem eru bara vinir þess sem gaf þeim að borða síðast… 🙂
Hvað um það, kominn tími á að hátta, eða byrja að hátta. Það þarf alltaf að gera einhver próf (mæla hita, blóðþrýsting) þannig að það tekur dágóða stund að koma sér í háttinn og oftar en ekki erum við að sofna á miðnætti. Læknir kemur svo milli 6 og 7 í fyrramálið og þar með er friðurinn yfirleitt úti…