Dagur 12: Fjallasýn
[Enjoyed my view of the skyline today. Took a while to “wake up” as the traffic in my room between 6 and 10 am is mindboggling and since I got up every 2 hours last night to pee, I was again low on sleep. Had a 24 hour long drought from yesterday until today, but the accumulated juice has been blubbing out slowly since 4pm. Getting more used to it now. Still, no news is good news and things are currently “stable”. Oh, and the IV is out! It wasn’t looking good last night and the nurse removed it. Since I have the crappiest veins in the world, I begged for mercy this morning when they wanted to put another one in “just in case” and so far they’ve let me be… Knocking on wood! And finally, I don’t have gestational diabetes.]
Fögur er fjallasýn segi ég nú bara! Átti rólegan dag eftir aðra svefntruflaða nótt (klósettferðir á tveggja tíma fresti og svo stöðug umferð inn í herbergið frá 6 til 10 í morgun. Var svona farin að ranka við mér upp úr hádegi. Fékk nokkrar hringingar héðan og þaðan og þakka enn og aftur allar heillaóskirnar og hlýja strauma.
Kvöldhjúkkunni leist ekki nógu vel á æðalegginn minn í gærkvöldi og fjarlægði hann. Lét vera að setja upp nýjan því ég var að fara að sofa, og í morgun baðst ég vægðar um að fá annan settan upp. Ég er með svo ferlega léglegar og litlar æðar að þær bara þola svona læti illa. Einn læknirinn sagði að það væri ennþá meiri ástæða til að setja upp legg, en ég sagði að hvað ef ekkert gerist í 3-5 daga? Þá er búið að eyðileggja þá æð líka og það er nú ekki eins og þær vaxi nú alveg á trjám hjá mér.
Æðaleggslaus tókst mér að hekla einn bút í dag, en það var vandræðabútur. Þurfti að rekja ystu tvö lögin upp tvisvar eftir alls konar klúður. Andlega hliðin er greinilega ekki sterkari en svo að hún getur ekki bæði hlustað á útvarpið og heklað rétt á sama tíma! En það hafðist og telst mitt “verk” í dag.
Þegar það byrjaði að leka aftur um fjögurleytið í dag eftir 24 tíma þurrkatíð þá var ég mónitoruð og allt leit vel út (tvíburarnir fá mikið hrós fyrir góðan hjartslátt). Ég veit ekki alveg hvort mér líki betur við síleka eða svona þurrkutíð og stærri leka. En er á meðan er og maður sættir sig við það sem gerist enda hef ég enga stjórn yfir því.
Eftir kvöldmat komu Finnur og Anna Sólrún í stutta heimsókn. Þau fóru í barnaafmæli í morgun en Anna Sólrún neitaði víst að leggja sig eftir hádegi (þó svo að Finnur sofnaði tvisvar á meðan). Þau fóru síðan til Ödu vinkonu og mamma hennar sendi Finn heim í afslöppun (og endurnýjun á þolinmæðiskvótanum) á meðan stelpurnar léku sér. Það er verst að sú fjölskylda er að flytja yfir á hina ströndina á miðvikudaginn. Við eigum eftir að sakna þeirra.
En sum sé, hér er ég enn og engar fréttir nema að ég er ekki með meðgöngutengda sykursýki. Ég er víst í tvöföldum áhættuhóp því ég geng með tvíbura og er rúmliggjandi, en allar blóðprufurnar voru víst eðlilegar. Ég er ennþá ein á herbergi sem er gott og slæmt. Hef engan til að tala við, en þarf á meðan ekki að nota heyrnatól til að hlusta á tölvudót. En nú er víst best að fara að undirbúa sig undir háttinn. Vonast eftir rólegri nótt…