Gleðilega þakkargjörðahátíð!
Þakkargjörðahátíðin í Bandaríkjunum var haldin hátíðleg í dag á þessu heimili sem og öðrum hér í landi. Við Anna Sólrún fórum því í uppáhaldsbúð Eyrúnar systur (WholeFoods) til að kaupa í matinn á meðan Hrefna og Bjarki gerðu heiðarlega tilraun til að ná upp svefnskuld eftir nóttina.
Ég var ákveðinn að kaupa eitthvað annað en kalkún þetta árið, enda margt annað gott kjöt í boði og við Hrefna til í að gera eitthvað nýtt í ár. Þetta endaði á hunangsleginni skinku þó að efst á listanum hefði verið “djúsí” svínalæri með pöru að hætti foreldra minna. Einhverra hluta vegna eru þeir hættir að selja svínakjöt með pöru alls staðar hér um slóðir mér til mikillar armæðu. Líklega þarf ég að sérpanta fyrir jólin. :s
Hvað um það. Um klukkan 4 stóð Hrefna upp til að fara með gríslingana út að ganga og ég fór að huga að veislumatnum. Nema hvað, ég fann hvergi skinkuna sem ég hafði keypt í WholeFoods!! Í stresskasti leitaði ég í ísskápnum, frystinum, út um allt í eldhúsinu og um allt í bílnum en hvergi fannst skinkan. Nú voru góð ráð dýr enda lokuðu allar búðir hér um hádegi í dag enda hátíðardagur. Ég sá fyrir mér að hafa gleymt skinkunni í búðinni og sá núna Hrefnu ljóslifandi fyrir mér í framtíðinni – árlega að sjálfsögðu – að rifja upp þegar ég gleymdi skinkunni í búðinni á Þakkargjörðahátíðinni árið 2007 og við þurftum að borða “harðsoðið egg og slátur, ojjj bara”. 🙂 Svipað og um árið þegar pabbi var að skera fyrsta skammtinn af heimalagaða páskaísnum sem var svo frosinn að það þurfti afl til að ná í gegn og loksins þegar ísinn gaf undan fór hnífurinn í gegnum skálina og glerbrotin flugu út um allt. Enginn páskaís það árið – atvik sem pabbi fær seint að gleyma. 🙂
Ég hafði þó ekki gleymt skinkunni í búðinni eins og ég óttaðist því að skinkan fannst þar sem ég skildi við hana: í grænmetisskúffunni í ísskápnum (það var ekki pláss fyrir hana annars staðar). Já, það er ekki að ástæðulausu að Eymundur afi minn kallaði mig prófessor á mínum yngri árum. 🙂
Maturinn heppnaðist vel, enda matseðillinn ekki af verri endanum: hunangsgljáð skinka, rjómalöguð sveppasósa að hætti pabba míns (sveppirnir smjörsteiktir að sjálfsögðu ásamt hvítlauk), ferskt salat og amerísk kartöflumús (úr sætum kartöflum/yams). Það er á svona stundum sem manni verður hugsað til allra stórmáltíðanna í Fremont hjá Guðrúnu og Snorra, sem við hefðum gjarnan viljað deila þessu með.
Við fengum meira að segja gott tóm til að borða matinn því að Bjarki (sem venjulega verður óvær um kvöldmatarleytið) er farinn að taka snuð og sat í stólnum sínum og horfði á okkur borða. Önnu líkaði maturinn mjög vel; svo vel að hún hélt á skinkusneiðunum eins og um brauð væri að ræða og skóflaði upp í sig sósunni og kartöflunum: “Get ég fengið meiri kartabaulumús?” 🙂
Fjölskyldufaðirinn var svo síðastur að klára og ef Steinunn hefði verið hér til að spyrja hvort “hundarnir borða undir borðum hjá þér, herra Latterhouse” (lókal húmor) þá hefði þetta verið alveg eins og hver önnur jólamáltíð í Álmholtinu. 🙂
Hvað gerðist svo annað í dag? Jú, við tókum jólamyndir af gríslingunum og hér að neðan er smá sýnishorn: