Matskonur
Í dag komu tvær konur frá Early Start prógramminu til að kíkja á Bjarka. Sem fyrirburi er hann er í áhættuhópi fyrir alls konar þroskavandamál og því megum við eiga von á að fá amk mánaðarlega heimsókn frá sérfræðingi til að fylgjast með því hvernig honum gengur. Þetta var fyrsta skoðunin og þær voru hérna í næstum tvo tíma að fylgjast með honum, prófa heyrn og sjón og spyrja mig spjörunum úr. Ég má svo eiga von á skýrslu fjótlega og upplýsingum um hvenær næsta skoðun verður.
Mér skildist á þeim að Bjarki væri bara á góðu róli þroskalega séð og það eina sem þær vildu að við tækjum á er að hann hefur tilhneigingu til að líta bara til hægri þegar hann liggur á bakinu (eins og við vorum sjálf búin að taka eftir). Okkar verkefni er sem sagt að reyna að koma honum þannig fyrir að hann líti meira beint fram og til vinstri en hann gerir núna.
Annars sagði önnur konan (sem er hjúkka) að ef hún vissi ekki að Bjarki væri fyrirburi, þá hefði hún aldrei giskað á það því hann er hvorki mjög fyrirburalegur í útliti né hegðun.
Þegar þær voru farnar brugðum við Bjarki okkur svo í hátíðar-kaffi á leikskólanum þar sem foreldrarnir mættu með drykki (djús, bjór og vín) og alls konar góðgæti (t.d. súkkulaðikökur) og spjölluðu saman. Bjarka fannt heldur mikil læti þarna inni, en sofnaði þó og svaf í smá tíma. Þegar hann vaknaði aftur var hins vegar friðurinn úti og ég fór með hann heim skömmu seinna, en Finnur og Anna fóru í búðina að kaupa í matinn.