Strandferð
Við fórum í lengsta ferðalag okkar síðan í maí í dag – alla leið til Santa Cruz og svo suður til Monterey. Fyrsta stopp var Natural Bridges ströndin í Santa Cruz þar sem kíktum á Monarch fiðrildin en urðum fyrir nokkrum vonbrigðum því þau voru talsvert færri en fyrir sjö árum þegar við fórum þarna fyrst. Það var heldur kalt þennan dag svo að þau voru ekki mikið á ferðinni.
Eftir fiðrildaskoðunina þá keyrðum við suður í tæpa klst til Monterey og fórum beint í sædýrasafnið enda vindasamt úti og lítið vit í að vera með Bjarka á vappi. Við vorum ekki einu snillingarnir sem datt í hug að fara á safnið því það var mökkur af fólki þarna inni en sem betur fer er safnið það stórt að þetta var alveg bærilegt. Anna Sólrún var alveg heilluð af otrunum sem voru í góðu skapi þennan dag og ég gapti yfir nýja risastóra sólarfisknum.
Eftir sædýrasafnið fórum við með Bjarka á veitingastað í fyrsta sinn sem gekk upp og ofan því hann var orðinn þreyttur. Það bjargaði málunum að við fengum bás til afnota svo við gátum lagt hann út af. Við forðuðum okkur samt eins fljótt og við gátum enda stuttur þráðurinn í þeim stutta. Anna Sólrún hélt sér vakandi alla leiðina heim þótt keyrslan tæki eina og hálfa klukkustund og niðurmyrkur væri úti. Hún fékk slæmt kast af “are-we-there-yet-itis” og spurði á tveggja mínútu fresti hvað væri langt heim síðasta hálftímann… gaaaaaa! 🙂
Hér koma síðan myndir:
Anna hoppandi kát á ströndinni.
Bjarki og Anna.
Fiðrildi að fljúga í sólinni hátt uppi í tré.
Forvitinn sæ-otur, uppáhaldið hennar Önnu Sólrúnar í þessarri ferð.
Bjarki næstum 6 mánaða (ja, eða 3ja) á veitingastað í fyrsta sinn. Þetta tak er “pabba-pósan”, takið sem virkar best til að róa hann niður ef hann er órólegur.