Annáll Stressársins mikla 2007
Ég held það sé ekki hægt að segja annað en að við öndum stórum léttar hér á þessu heimili yfir því að þessu viðburðarríka ári sé nú loksins lokið; árið sem mun lifa í minningunni sem “Stressárið mikla 2007” – við lifum allavega í þeirri von að stressið á komandi árum verði minna.
Það má eiginlega segja að lætin hafi byrjað um leið og við komum heim úr jólafríi frá Íslandi er í ljós kom að fyrirtækið sem ég vann fyrir væri í erfiðleikum með að tryggja sér fjármagn frá fjárfestum og atvinnuhorfur því ótryggar. Stuttu síðar varð ljóst að Hrefna væri ólétt og í mars komumst við að því að hún gengi með tvíbura.
Það tók daglega á taugarnar að renna starfsmannakortinu í gegnum raufina við innganginn (myndi það virka?) en ég hafði fyrir löngu fjarlægt alla persónulega muni úr vinnunni því hér í landi tíðkast uppsagnir án nokkurs fyrirvara. Í staðinn fyrir að vinna undirbjó ég mig fyrir atvinnuviðtöl því það voru hvort eð er nánast engin önnur verkefni í gangi í fyrirtækinu þar sem ekki var ljóst í hvað stefndi.
Í apríl áttuðum við okkur á að vegabréfsáritun Hrefnu myndi renna út í ágúst og hún þyrfti að fara heim til Íslands til að fá nýja áritun. Hrefna tók því þá ákvörðun að “skreppa” ein heim til Íslands í viku í maí. Um það leyti kom í ljós að við myndum missa íbúðina í ágúst og leitin að íbúð nálægt kampus reyndist ekki skemmtileg reynsla. Út af versnandi fasteignamarkaði þá var ágangurinn í leiguíbúðir orðinn það mikill að leigusalar voru farnir að sýna íbúðir í nágrenninu í hálftíma og leigja þær svo fólki sem hafði ekki einu sinni komið að skoða en var samt tilbúið að yfirbjóða uppsett leiguverð.
Það var svo ekki til að minnka stressið að Hrefna hafði sett sér það markmið að verja um sumarið áður en að fæðingu kæmi. Þau plön voru allsnarlega lögð á hilluna þegar læknirinn fyrirskipaði rúmlegu í byrjun júní (á 23. viku) út af grunsemd um að annar belgurinn væri sprunginn (og það síðan í apríl) og mátti hún ekki fara fram úr nema til að fara á klósettið.
Hrefna lét það ekki á sig fá og gerði heiðarlega tilraun til að halda greinarskrifum áfram með ferðatölvuna sér við hlið og matinn í rúminu. Viku síðar var hún hins vegar lögð inn á spítala þar sem nú þóttu fóstrin lífvænleg og henni gefnar sterasprautur og sýklalyf í æð. Það var talið að það væri einungis dagaspursmál þar til upp kæmi sýking í legi sem myndi framkalla fæðingu.
Við fengum þó blessunarlega tvær vikur í viðbót áður en sýkingin kom en rétt eftir miðnætti, þann 28. júní (tveimur vikum síðar en þremur mánuðum of snemma), var Hrefna send í bráðakeisaraskurð. Eftirleiknum hefur verið gerð góð skil þannig að það er ekki ástæða til að útlista hann frekar en ljóst er eftir þá reynslu að ekkert foreldri ætti að þurfa að standa frammi fyrir útför eigin barns.
Síðan tók við þriggja mánaða spítaladvöl Bjarka og endalausar áhyggjur yfir blóðsýkingum, súrefnismettun, beinþynningu, augnsjúkdómum, heilablæðingum og þar fram eftir götunum.
En það rættist úr þessu öllu á endanum sem betur fer (merkilegt nokk) og því bjartari horfur framundan. Bjarki er kominn heim, laus við súrefnið og augnsjúkdóminn og virðist vera heilbrigður eftir því sem best er vitað. Hann vex og dafnar og lítið annað en vélindabakflæði sem hrjáir hann í dag en við því tekur hann lyf.
Það rættist úr húsnæðismálum eftir að Kerri vinkona okkar hafði samband við húsnæðisnefndina og fékk þá til að framlengja leiguna um eitt ár. Atvinnumálin leystust líka þegar gengið var frá kaupum á fyrirtækinu og Gúgúl bauð mér starfssamning. Hrefna er reyndar eftir sem áður stressuð yfir að klára námið en það hefur verið staðalástand undanfarin ár og því má segja að lífið sé komið í hefðbundnar skorður. 🙂
Það var líka ómetanlegt að Anna Sólrún sigldi í gegnum Stressárið mikla með miklum glæsibrag og tók öllu því sem á hana var lagt með jafnaðargeði. Ekki nóg með að hún ætti von á systkinum, heldur var mamma í burtu í viku í maí og þrjár vikur í júní. Á sama tíma skipti hún um bekk og eignaðist bróður sem átti heima á spítala. Nú er hann kominn heim og hún hefur verið afskaplega góð við hann þó svo stundum þurfi að minna hana á að það þurfi að fara vaaaaarlega með hann.
Það rifjaðist annars upp fyrir okkur að við lok síðasta árs (2006) voru vinir okkar Augusto og Sarah að rifja upp að þau væru nýbúin að vinna sig í gegnum ótrúlegt stressár og gantast með að leita eftir næsta langhlaupara til að afhenda stress-kyndilinn. Það hljóp enginn upp til handa og fóta til að taka á móti honum en einhvern veginn virðist hann hafa endað hjá okkur. Ef einhver vill smá krydd í tilveruna þá er kyndillinn inni í geymslu, innpakkaður í blöðruplast og hægt að senda hann hvert á land sem er.
Við óskum öllum lesendum annars gleðilegs nýs árs!