Gestagangur og skópælingar
Við Bjarki fengum fullt af gestum í dag. Þau Logi og Tassanee (sem búa núna í Kanada) fóru í brúðkaup í Yosemite um helgina og eyddu deginum í dag hérna í Bay Area. Þau stoppuðu við hjá okkur í stutta stund og sögðu hæ við Bjarka í fyrsta sinn. Á meðan þau voru hjá okkur, þá kom Soffía með tvíburana og Önnu au-pair í heimsókn. Þeir Atli Freyr og Breki Freyr voru nýkomnir úr bólusetningu í Menlo Park og sátu rólegir í bílstólunum sínum.
Það gerðist annars ekki mikið um helgina. Á laugardaginn fór Anna í sund að venju, og á sunnudaginn fór ég með hana í stóru outlet-kringluna til að kaupa skó. Fæturnir á þeirri ekki-svo-stuttu virðist hafa vaxið um númer í vikunni og þá átti hún bara eftir eina skó sem pössuðu. Hún er núna komin upp í stærð 13, eða 31 í evrópska kerfinu. Það er síðasta númerið áður en hún dettur úr “toddler”-stærðarkerfinu og inn í “youth”-kerfið (sem byrjar á 1).
Mér til nokkurrar gremju þá er hætt að framleiða skóna sem ég hef keypt handa Önnu undanfarin tvö ár. Ég fann samt aðra tungulausa skó (“Mary Jane”) frá sama fyrirtæki sem henni líkaði við. Á leiðinni út sá ég útsöluborð, og þar fann ég eitt par af skónum sem þeir eru hættir að framleiða í stærð 13.5 fyrir brotabrot af venjulegu verði. Jibbííí! 🙂 Því miður virðist hins vegar sem að sandalarnir sem ég hef keypt undanfarin tvö ár séu bara búnir til upp í stærð 12. Ég þarf því að róa á önnur mið þegar nær dregur sumri…
Ástæðan fyrir því að ég hef keypt sömu skóna trekk í trekk er sú að “Stride Rite” merkið býður upp á svokallaða “toddler tech” skó sem eru með skynsamlega hannaða mjúka og sveigjanlega sóla. Ég veit fátt verra en stífa og óbólstraða sóla, sérstaklega því að Anna Sólrún er meira og minna hoppandi/hlaupandi allan daginn.
Sjálf er ég í endalausum vandræðum með skó því að ég er með “tábergs-sig” og get því ekki gengið á hörðum skóm – og helst ætti ég að nota innlegg til að lyfta táberginu. Reyndar velti ég því stundum fyrir mér hvort að “sérsmíðuðu” skórnir sem ég gekk í sem krakki hafi gert illt verra með tilliti til tábergs-sigsins. Ég veit að skósmiðurinn meinti vel, en ég er ekki alveg viss um að hörðu innleggin hafi alveg verið það allra besta.
Mig minnir að ég hafi lesið að það sé best að börn læri að ganga skólaus, eða í mesta lagi í mokkasíum. Því hef ég furðað mig á því hvað barnaskórnir frá Steinari Waage eru allir stífir og með svakalegu háum “arkar”-púða í miðjunni. Ég get ekki ímyndað mér annað en að börnin fái verk í ilina af því að vera í þeim skóm… Hver ætli hafi hannað þá í upphafi? Og hafa þeir breyst mikið í gegnum áratugina?
Hvað um það. Í leiðinni stoppaði ég í Carter’s (hinni uppáhaldsbúðinni minni) og keypti sumarföt á Önnu Sólrúnu (veit ekki alveg hvað Bjarka á eftir að vanta ennþá). Hún er líka í síðustu stærðinni í þeirri búð – er að vaxa upp úr 5, svo ég keypti 6 – og þá þarf ég að finna nýja búð. Gap kids kemur til greina, nema hvað að það er allt svo dýrt þar. Grumble!
Helgin slúttaði svo á saumaklúbb sem Edda hélt í Los Gatos. Fínar veitingar og góður félagsskapur = algjör snilld! 🙂
Með grænar baunir út á kinnar. Byrjaði að fá baunir síðasta miðvikudag. 🙂
Breki Freyr, Atli Freyr (8 mánaða) og Bjarki Freyr (rúmlega 7-3 mánaða)