Cöru-heimsókn
Þegar Bjarki var á spítalanum þá var hann með þrjár “aðal”-hjúkkur, það er hjúkkur sem sáu um hann (og yfirleitt eitthvað annað barn líka) alltaf þegar þær voru á vakt. Ein þessara hjúkka bað sérstaklega um að fá að halda sambandi við okkur eftir útskrift. Sú heitir Cara og hefur verið vökudeildar-hjúkka í tíu ár og heldur ennþá sambandi við marga af sínum gömlu sjúklingum/fyrirburum.
Hvað um það, við erum búin að vera á leiðinni með að fá hana í heimsókn síðan í nóvember, en alltaf hefur eitthvað komið upp á, svo sem kvef og aðrar pestir. En í dag tókst okkur loksins að stilla saman strengi, og Cara kom í heimsókn seinnipartinn og borðaði með okkur kvöldmat.
Hún var afskaplega glöð að sjá hvað Bjarki hefur stækkað og hvað hann lítur almennt vel út. Það vildi líka svo vel til að sá stutti svaf afskaplega vel áður en hún kom í heimsókn og lék við hvern sinn fingur (bókstaflega) það sem eftir lifði dags. Hún endutók það nokkrum sinnum hvað henni þótti vænt um að fá að sjá hann aftur, enda ekki alltaf sem börn sleppa að mestu vandkvæðalaust (sjö, níu, þrettán) af vökudeildinni. Eftir tíu ár þá held ég að hún hafi séð ýmislegt miður skemmtilegt.
Hvað um það, heimsóknin gekk vel og við fáum hana vonandi aftur í heimsókn áður en langt um líður.
Cara með Bjarka.