Sólarsirkús
Ég fór með Önnu, Söruh og Augusto að sjá nýjustu Cirque Du Soleil sýninguna, sem heitir Kooza. Þetta var fyrsta ferð Önnu í sirkús, og þó svo að atriðin hafi verið flott, þá verður því ekki neitað að fyrri helmingurinn tók heldur á taugarnar á þeirri ekki-svo-stuttu. Henni var svo meinilla við háværu tónlistina (ég hélt fyrir eyrun á henni alla sýninguna) og suma karakterana að hún bað um að fá að fara heim í hléi, en mér tókst að tala hana til og skýra fyrir henni aðeins hvað væri í gangi. Eftir hlé róaðist hún aðeins og klappaði meiri að segja nokkrum sinnum, sérstaklega fyrir “jugglaranum”.
Hún verður samt líklega lengi að melta þessa lífsreynslu, og meðal spurninga kvöldsins voru “af hverju fórum við í sirkús?”, “af hverju slapp Michael?” (einn trúðurinn/vasaþjófur slapp úr lögreglu”bílnum” og birtist á meðal áhorfenda) og “af hverju lét pósturinn hann hafa pakka?” (í upphafsatriðinu þá kemur sendidrengur með stóran pakka til eins leikarans, og upp úr honum kemur “töfrastelpa” sem notar töfrasprota til að kveikja á öllu saman og kalla fram listamennina). Undir lokin sveiflaðist hún á milli þess að vilja fara aftur (til að sjá jugglarann) eða ekki (vildi ekki sjá töfrastelpuna). Flókið líf! 🙂
Hvað um það, við fullorðna fólkið skemmtum okkur ágætlega og vorum sammála um að það þetta hafi verið ágæt nýting á sunnudags eftirmiðdegi. 🙂