Leikskólafréttir
Við fengum þær fréttir í dag að Anna geti byrjað í Gúgul-leikskólakerfinu um miðjan apríl. Sólveig og Arnar eru með báða sína krakka á sama leikskóla, og eru mjög ánægð, svo við erum spennt að fara að skoða hann á föstudaginn. Það eru reyndar blendnar tilfinningar með að færa Önnu á milli skóla því að henni (og okkur) líkar afskaplega vel við leikskólann sem hún er í núna. Svo veit ég líka fyrir víst að Bjarki er svo gott sem efstur á lista með að komast inn í núverandi leikskólann hennar, en ég er ekki alveg viss um hvar hann kæmi til með að vera ef Anna fer í hitt kerfið (hann ætti samt að færast eitthvað upp á við á lista).
En það er hins vegar margt sem mælir með því að við færum Önnu á milli skóla. Í fyrsta lagi þá eiga eiginlega allar hennar bestu vinkonur eftir að útskrifast í lok sumars og byrja í alvöru skóla (“kindergarten”). Þó svo að leikskólakennararnir minnist á það af og til að Anna sé það þroskuð miðað við aldur að hún gæti byrjað í skóla í haust, þá er hún fædd eftir 3. desember og getur því ekki byrjað fyrr en á næsta ári (þarf að vera 5 ára þann 3. des til að mega byrja).
Gúgul-leikskólinn er líka nokkuð ódýrari en núverandi leikskólinn (munar $250 á mánuði, sem eru 19 þús krónur á núgengi, per krakka!), bekkirnir eru minni, þar er boðið upp á fullt fæði af Gúgul-gæðum (lífrænt og eldað á staðnum), skólinn er staðsettur mjög nálægt vinnustað Finns og í eilítið ódýrari bæjarfélagi, svo að við ættum að geta fengið leiguhúsnæði á eilítið viðráðanlegari kjörum en hérna í næsta nágrenni við háskólann. Ofan á það bætist að ef og þegar ég útskrifast þá höfum við bara 90 daga áður en við missum plássið á núverandi leikskólanum – sem fær mann nú bara til að draga hælana við útskriftarvinnuna!
Á móti kemur að það er líklega ekki það allra besta fyrir sálarlíf Önnu að rífa hana upp úr góðum skóla með góðum kennurum. Þar til að við flytjum síðar í sumar þá á hún líka eftir að þurfa að dúsa all-lengi í bíl með pabba sínum til að komast til og frá leikskólanum (15-20 mín hvor leið). Hins vegar fékk ég í dag þá hugmynd að við gætum tekið Gúgul-plássið án þess að byrja að nota það alveg strax (sá kostnaður myndi vinnast upp á 2-3 mánuðum síðar meir), ferðast til Ísland í júní og svo skipt um skóla þegar við komum aftur… hhmmmm… #melt, melt#
Hvað um það. Þetta var svona dagur þar sem einn tölvupóstur velti tilverunni á hausinn.