Leikskólaheimsóknir
Nú er komið föstudagskvöld og ekkert heyrst frá okkur síðan á sunnudaginn. Best að rifja upp atburði vikunnar… Á mánudaginn fór ég og sagðí upp núverandi leikskólaplássi Önnu Sólrúnar. Mér heyrðist á konunni að Bjarki hefði svo gott sem verið kominn með pláss á sama leikskóla en ég sagði henni að hann væri að byrja annars staðar og vildi því ekki vera að reyna að troða honum þarna inn.
Á þriðjudaginn fórum við Finnur svo í heimsókn númer tvö á Gúgul leikskólann, í þetta sinn til að skoða bekkinn hans Bjarka. Við gengum um ásamt 3 öðrum foreldrapörum og hlustuðum á svo til sömu ræðuna um skólann. Ég spurði um ráðningarferlið hjá þeim, og konan sagði að þau væru búin að fá um fjögur-þúsund umsóknir, þar af hefði þau ráðið um sjötíu-og-fimm leikskólakennara. Það vantar ennþá handfylli af kennurum til að full-manna skólann.
Það kom mér því ekkert sérstaklega á óvart að allir kennararnir hans Bjarka eru ææææææðislegir, eða ææææðislegar öllu heldur því allt eru þetta konur. Þær eru allar svakalega indælar, þær tala stanslaust við krakkana (ég er núna að fara að gera þetta, núna ætla ég að hjálpa þér, núna…), eru ótrúlega þolinmóðar, áhugasamar og gera allt “rétt” eftir því sem ég get best séð.
Ég varð nú samt bara að brosa því að bekkurinn sem hann er að byrja í núna er svo allt allt öðruvísi en bekkurinn sem hann hefði farið í. Til að byrja með þá eru bara þrjú önnur börn í bekknum núna, og þau verða mest sex. Öll börnin verða milli 6-8 mánaða, og Bjarki er held ég minnstur af þeim sem ég hef séð. Á gamla leikskólanum hefði Bjarki byrjað í bekk þar sem 10 krakkar eru í pössun í einu, á færri fermetrum, og flestir krakkarnir væru um eins og hálfs árs!
Ekki nóg með það, heldur hafa tvö börn verið fjarverandi þessa vikuna (í fríi) svo að ég hef mætt með Bjarka eftir hádegi og þar situr hámenntaður leiskólakennari og lítur eftir einni átta mánaða stelpu – sem hefur yfirleitt verið sofandi! Bjarki hefur annars unað sér mjög vel þarna, brosað til allra og leikið við dót. Í dag tókst mér næstum að svæfa hann, en hann vaknaði þegar litla stelpan fór að láta heyra í sér. Hann þarf að venjast því að sofa í hávaða… 🙂
Á mánudaginn þá ætla ég að skilja hann eftir í um klst. og svo auka tímann hægt og rólega. Á meðan ætla ég að reyna að vinna smá, enda verið í hálfgerðu vinnustoppi þessa vikuna því að það hefur ekki verið mikil orka eftir í lok dags.