Veikindauppfærsla
Flensa áratugarins hefur haldið áfram að tröllríða öllu á okkar heimili undanfarna daga. Hildur Sif jafnaði sig að mestu í síðustu viku. Arnbjörg fór að ná meðvitund á mánudaginn og ég í dag. Anna Sólrún varð veik á mánudagskvöld með 39.4 stiga hita. Halli sem var búinn að standa sig eins og hetja, féll í flensuvalinn í gær og Finnur í morgun. Nú erum við bara að bíða eftir að Bjarki verði veikur og þá eru allir komnir!
Flensan lýsir sér þannig að fyrst kemur hár hiti í 3 daga eða svo ásamt svima, bólgnum eitlum út um allan líkama, aumum liðamótum og baki, sárum hálsi, svakalegri þreytu, hósta sem rífur í brjóstholið og hroll. Á fjórða degi eða svo byrjar brjáluð kvefpest með hnerra, stífluðu nefi og meiri hálsbólgu sem stendur svo í 1-3 daga í viðbót. Það er alls ekki útilokað að hér sé um fleiri en eina pest að ræða!
Hvað um það, í dag tókst okkur Öddu loksins að fara í átlett mallið (Great Mall) með Hildi Sif á meðan Halli, Finnur og Anna lufsuðust veik heima og Bjarki var á leikskólanum. Í gær fóru þau hjónakornin í stutta bílferð í dótabúð og apótek. Á mánudaginn vaknaði Halli með sáraumt bak, og þá var ákveðið að uppfæra rúmið hennar Önnu Sólrúnar. Leiðin lá í Ikea og þar keyptum við nýja “queen” dýnu og rúm til að halda henni uppi af gólfinu. Gamla rúmið fór út á stétt með “free” miða og hvarf nokkrum klukkustundum síðar.
Annars veit ég ekki hvort það sé plan fyrir næstu tvo daga (þau fara á laugardagsmorgun) en ég held að það sé nokkuð víst að hvorki Finnur né Anna séu að fara í vinnu/leikskóla fyrr en í næstu viku!