Nýtt daglegt líf
2010-01-27Uncategorized Standard
Eftir veikindi undanfarinna tveggja vikna þá hefur þessi vika hingað til verið tiltölulega “eðlileg”. Ég var ferlega forsjál og skipulagði “pleideit” hérna heima með sinni hvorri bekkjarsystur Önnu eftir skóla á mánudegi og þriðjudegi (skólinn er búinn kortér fyrir hádegi). Það munar ótrúlega miklu að geta flutt inn leikfélaga til að hafa ofan af fyrir Önnu á daginn svo að hún sé ekki hangandi utan í mér í marga klukkutíma, að drepast úr leiðindum, því ég neita að halda uppi stanslausri skemmtanadagskrá.
Á þriðjudaginn fór Anna líka í píanótíma númer tvö. Við prufukeyrðum kennarann í síðustu viku, og þegar við mættum kom í ljós að hún er tónlistakennarinn í skólanum hennar Önnu sem ég hafði ekki hugmynd um. Hún er ferlega fín, og greinilega vön að vinna með krökkum, þannig að ég var ekkert að leita lengra. Nú lendir það hins vegar á mér að koma Önnu upp á lagið að vilja æfa sig, en ég heyri á kennaranum að hún stefnir að því að Anna æfi sig sjálfstætt sem er í fínu lagi mín vegna!
Hvað varðar píanó hérna heima fyrir þá gaf jólasveinninn fjölskyldunni rafmagnspíanó, og ég sit núna á kvöldin (með heyrnatól) og glamra mig í gegnum þessa ágætu kennslubók sem ég rakst á í einni bókabúð. Ég er nefnilega ekki alveg tilbúin að fara að eyða peningum í píanókennslu fyrir sjálfa mig, fyrst vil ég sjá hversu langt ég kemst sjálf. Markið er annars ekki mjög hátt sett. Ég veit um eitt “fullorðinslag” sem mig langar til að kunna, og svo væri gaman að kunna nokkur krakkalög. Þær nótnabækur fá hins vegar að bíða þar til ég klára grunnbókina.
Annars er “frí”-tilfinningin hægt og rólega að koma sér fyrir í hausnum á mér. Þannig velti ég fyrir mér valkostum í morgun eftir að allir voru horfnir að heiman nema ég, og endaði úti í garði að klippa plöntur. Eftir skóla fór Anna í eftirskólapössun (ennþá þrisvar í viku, þó svo að það sé líklega ekki réttlætanlegt peningalega séð í augnablikinu) og ég notaði tækifærið og hitti gamla skólasystur og borðaði með henni hádegismat, og fór svo, eins sjokkerandi og það er, í sund og synti einn kílómeter. Anna hefur ekki verið í sundskólanum síðan í haust, og því langt frá síðasta svamli. Og já, ef einhver ætlar að kvarta yfir sundlaugaverði á Íslandi, þá kostaði það $6, eða um 750 isk, að hoppa ofan í laugina.
Þar með var hins vegar dagurinn svo gott sem búinn, því að við erum bara með einn bíl, og það tekur dágóðan tíma að rúnta um og ná í alla fjölskyldumeðlimi úr vinnu og skóla. Ég svindlaði hins vegar í kvöld og pantaði take-out, enda þreyttari eftir sundið en ég vildi fús viðurkenna. Yfirleitt hjólar Finnur núna í vinnuna, en það hefur gengið á með skúrum og hann því kátur fengið far á morgnana með Hrefnu-strætó.
Í kvöld gerði ég það sama og önnur kvöld í þessari viku: tók upp handavinnu og horfði/hlustaði á fyrirlestra frá TED fyrirlestraseríunni. Ég hef endrum og eins horft á einn og einn TED fyrirlestur þar sem þeir hafa gengið sem faraldur á milli fólks, en nú er svo komið að vefurinn þeirra er að springa af forvitnilegum og áhugaverðum fyrirlestrum (ca. 10-20 mínútna langir flestir) og því ekki seinna vænna en að fá sér að smakka. Í kvöld var ég sérstaklega hrifin af þessum fyrirlestri og finnst að sem flestir ætti að sjá hann. 🙂
Í handavinnufréttum er það helst að ég rykkti loksins saman þessum 20 hekluteppisbútum sem hafa elt mig frá því að ég byrjaði á þeim á spítalanum fyrir um tveimur og hálfu ári síðan. Þar með fannst mér ég vera frjáls til að byrja á einhverju nýju, og fyrir valinu varð prjónuð húfa úr sama garni. Ekki er ég nú alveg viss um að garnþykkt og prjónastærð séu alveg að gera sig, en einhvers staðar verður maður að byrja! 🙂