Fyrirlestrardagur
Það var extra lítið um svefn í nótt, því ég var að rembast eins og hálf-vonkuð rjúpan við staurinn við að búa til gröf og glærur, með sódavatn við vinsti hönd og súkkulaði við þá hægri. Bjarki rumskaði rúmlega þrjú og þá ákvað ég að slá botn í bullið í bili og fór í háttinn. Sá stutti ákvað hins vegar að klukkan 6 í morgun væri orðið nógu bjart til að það væri kominn dagur en sem betur fer fór ekki mikið fyrir honum. Finnur fór svo með báða strumpana niður í morgunmat rúmlega sjö og ég fékk að sofa til átta. Ó, það eru litlu lúxus-stundirnar sem skipta máli! 🙂
Finnur vann svo að heiman í morgun til að geta hjálpað með Bjarka. Bjarki náði sem betur fer að lúlla í tvo tíma, sem hjálpaði báðum foreldrum hans heilmikið! Hvað um það, þegar nær dró hádegi í dag þá var ég komin með “nóg” til að geta tjáð mig um “eitthvað”, en samt var ég bara búin að skoða um þriðjung af því sem mig langaði til að skoða og segja frá. Það kom svo skemmtilega á óvart að þegar ég færði herlegheitin yfir á fartölvuna, þá virkuðu “vídeómyndirnar” án þess að ég þyrfti að laga neitt til. Sjokkerandi! Á móti kemur að ég háði langa baráttu við PowerPoint til að breyta tungumálinu úr íslensku yfir í ensku svo að stafsetningar-lagarinn myndi virka, en PowerPoint vann.
Finnur reyndar summeraði þetta fyrirlestrar-brölt vel upp þegar hann sagði ferlið eiga vel heima á PhD comics. Í fyrsta ramma ætlar saklaus doktorsneminn að sigra heiminn með sínum frábæra fyrirlestri, í öðrum ramma er svefnlaus doktorsnemi fegin að hafa amk “eitthvað” að tala um og í þriðja og síðasta ramma er rislágur doktorsneminn bara feginn að fyrirlesturinn virkar á tölvunni sem hann ætlar nota. 🙂
Ég hélt síðan mína tölu í hádeginu á meðan Finnur fór með Bjarka á leikskólann. Bæði núverandi og fyrrverandi prófessorarnir mínir voru viðstaddir og það var mikið handapat þar sem ég reyndi að tjá mig þrátt fyrir svefnleysið. Á svona stundum er maður þakklátur fyrir adrenalínframleiðslu líkamans! Þetta gekk svo sem ágætlega og eftir á samþykktu báðir proffar að þetta væri allt í áttina að vera verjanlegt. Það kom samt ekki á óvart að ég þarf aðeins að kíkja á næturvinnuna og endurgera suma hluti – ahemm! En það fær að bíða fram í júní … því nú erum við næææstum komin í sumarfrí!
Jú, á morgun er síðasti dagurinn til að standa í snakki og kaupa það sem kaupa þarf. Að sjálfsögðu er ég búin að draga lappirnar með suma hluti í rúman mánuð sem VERÐA að gerast á morgun eins og t.d. að fara í augnskoðun svo ég geti keypt nýjar linsur (gamla reseptið er orðið of gamalt). Hvað um það, best að rúlla sér í rúmið til að eiga séns í þeyti-tusku-morgundaginn – svo ekki sé minnst á flug-ferðalagið ógurlega daginn eftir það! 🙂