Tanntaka!
Fyrsta tönnin hans Bjarka fannst í morgun og var þar komin önnur neðri framtönnin. Sá stutti hefur verið eilítið pirraður undanfarið en þetta kom mér samt á óvart. Nú er bara að bíða og sjá hvar tönn númer tvö stingur upp kollinum.
Annars var þetta annar annasamur dagur. Finnur fór með Önnu í pössun til Sólveigar og Arnars og síðan hófst hann handa við að raða inn í risastóra eldhúsið okkar. Á meðan fór ég í gömlu íbúðina þar sem ég hitti Augusto og Söruh. Við þrifum gamla húsið hátt og lágt, og það vantaði bara herslumuninn að við næðum að klára. Það eina sem er eftir er að þrífa eldavélina, ísskápinn og vaskinn, svo og gólfið í eldhúsinu.
Ég keyrði með fullan bíl af drasli (ótrúlegt hvað það er alltaf mikið að drasli eftir þó svo að maður sé búinn að flytja “allt”) heim um fjögurleytið. Þegar það var búið að tæma bílinn fórum við og náðum í Önnu og skelltum okkur svo í barnaafmæli á kampus. Það var ágætis endir á deginum. Við kipptum með kínverskum mat á leiðinni heim, enda engin orka eftir fyrir eldamennsku.
Eftir að krakkarnir voru hrundir í rúmið þá náðum við að taka smá til, en það eru ennþá kassar út um allt. Við erum nokkurn vegin búin að koma húsgögnunum á sinn stað, en erum ekki alveg viss hvað við eigum að gera við annan helminginn af stofunni. Það er svona þegar stofan stækkar um rúmlega helming!!