Verkfalli lokið?
Það lítur út fyrir að brjóstaverkfalli Bjarka sé lokið, en við sjáum hvað setur. Það tókst sem sagt að plata hann á brjóstið í hvert skipti sem ég reyndi eftir að ég uppgötvaði að hann væri til í að taka það þegar hann var nýsofnaður eða við það að vakna. Í gærmorgun tók hann svo brjóstið sæmilega vakandi og eftir það hefur hann ekki maldað mikið í móinn. Mjólkin virðist svo sem betur fer vera að koma aftur eftir fátæklegan gærdag.
Þar sem að ég var á flakki um netheima að leita að upplýsingum um brjóstaverkföll rakst ég inn á heimasíðu fyrirbura sem ég hef rekist á endrum og eins áður. Það var til þess að ég fór á fyrirbura-vefsíðu-flipp og hef núna ekkert nema áhyggjur af framtíðinni. Ætli það sé ekki kominn tími á fyrirbura-vefsíðu-bann núna?!?! Það verður reyndar að segjast að flestar þær bloggsíður sem ég hef fundið um fyrirbura fjalla yfirleitt um börn sem hafa lent í meiri vandræðum og veikindum en Bjarki hefur hingað til. Maður verður því víst bara að vona það besta.
Því verður samt ekki neitað að hann er ekki aaaalveg eins og hin börnin á leikskólanum. Til dæmis er hann alveg heillaður af smáatriðum. Hann á það til að strjúka yfir teppi og horfa heillaður á teppahárin hreyfast. Bastkörfur eru ótrúlega spennandi og hann pælir mikið í spjaldbóka-blaðsíðum og hvernig þær flettast, en minna í myndunum. Ekki þjáist hann af athyglisbresti því hann getur leikið sér að og skoðað sama hlutinn í lengri tíma. Hann er allur í fínhreyfingunum og tekur seríós upp með því að klípa saman vísifingur og þumalfingur, á meðan önnur “eldri” börn nota fingurnar sem röku.
Hins vegar er hann voða mikið krútt sem er auðvelt að fá til að brosa og hann hlær þegar maður kitlar hann. Hann hlær líka mikið þegar Anna kemur að tala við hann, en minna þegar hún dröslar honum um allt. Hann er duglegur að borða og drekka (matarmál eru oft afskaplega erfið hjá fyrirburum) og allur að styrkjast þessa dagana þar sem hann skríður um gólfin “kommandó-stæl”.
Það þýðir víst lítið að velta sér upp úr þessu núna. Það sem gerist gerist bara og við verðum að taka á því ef/þegar að því kemur. Í millitíðinni ætla ég að horfa á smá Pride og Prejudice áður en ég skríð upp í rúmið. Á morgun ætlum við að byrja að mála nýja húsið þeirra Augusto og Söruh, en þau voru bara að fá lyklana í dag! 🙂