Samansull
Magapest
Það gengur víst alveg svakaleg magapest um leikskóla krakkanna þessa dagana. Vel flestir kennararnir hafa veikst svo ekki sé minnst á krakkana. Anna fékk pestina fyrir viku síðan, ældi þrisvar og var svo afskaplega aum síðasta sunnudag. Hún fór ekki að borða aftur af viti fyrr en á fimmtudag.
Bjarki virtist veikjast á fimmtudagmorgun og var heima allan fimmtudaginn. Eftir morgun ónotin var hann sprækur mjög svo að við settum hann aftur á leikskólann í gær, föstudag. Við gáfum honum líklega of mikið að borða um kvöldið því að hann ældi kvöldmatnum og svo ældi hann aftur morgunmatnum sem var þykk mauk-krukka. Bæði á fimmtudaginn og í dag hefur hann því bara fengið að súpa smá brjóstamjólk (eigum eftir tæpan mánaðarskammt í frystinum ennþá) á 10-15 mín fresti. Vonandi verður þetta síðasti magapestardagurinn, en ég óttast það örlítið að við fullorðna fólkið eigum ennþá eftir að falla í magavalinn.
Að vita upp á sig sökina
Þau Sarah og Augusto keyptu sér hús núna í mánuðinum og fengu það afhent á föstudeginum í síðustu viku. Húsið var allt málað í dökkum litum að innan og það var því alveg ljóst að það þyrfti að mála. Þau fengu tilboð frá verktökum sem voru frekar há svo að ég hvatti þau til að mála sjálf. Eða öllu heldur, ég sagði þeim að mig dauðlangaði að mála og bauð fram aðstoð okkar Finns.
Við hófumst handa á laugardeginum, og það var einmitt dagurinn sem Anna veiktist. Þegar dagurinn var við það að líða undir lok þá sannfærði ég annan húseigandann um að það þyrfti ekkert endilega að teipa panellagt loftið, það væri listi í kverkinni sem kæmi í veg fyrir að maður rúllaði á loftið, og að það þyrfti hvort eð er að nota pensil til að mála listann.
Hvað um það. Á sunnudeginum tókum við vaktir með krakkana og málningarvinnuna og það náðist að klára næstum allt húsið með hjálp margra góðra vina. Á mánudeginum var lokahöggið rekið á veggjamálninguna, en þá kom líka vel í ljós að loftið hafði ekki sloppið jafn vel og ég hafði vonað. Það var kannski ekki að undra því að þegar fólk fór að þreytast á sunnudeginum, þá fóru vinnubrögðin líka niður á við.
Þar sem ég vissi upp á mig sökina með loftið, þá tók ég að mér að mála yfir klessurnar, sem tók mig allt þriðjudagseftirmiðdegið og klukkutíma á miðvikudeginum. Eftir þá lífslexíu skal ég núna alltaf teipa loftið… 🙂