Tennur og fleira
Ný tönn
Í morgun þegar ég var að gefa Bjarka morgunmatinn sinn, þá heyrði ég hann í fyrsta sinn gnýsta tönnum. Jújú, við nánari skoðun kom í ljós að önnur efri framtönnin er búin að pota sig út úr tannholdinu og nú bíðum við bara spennt (eða þannig) eftir hinni framtönninni. Reyndar var hann ekkert ógurlega fúll með þessa tanntöku, mesta vesenið var líklega á honum í gærnótt en allt í allt þá virðist hann vera með háan sársaukaþröskuld. Hvað um það, hér með er tannfjöldinn kominn upp í fimm.
Við erum annars að prófa okkur áfram með að gefa Bjarka “venjulegan” mat og hann borðar núna pasta, hrísgrjón og seríós án nokkurra vandkvæða. Við höfum líka gaukað að honum melónu, avókadó, ananas, litlum kjötbitum og baunum. Merkilegt nokk þá finnst honum óstappaðir bananar lítt áhugaverðir. En þetta er allt í áttina, og við prísum okkur sæl með að hann borðar ágætlega, en ég hef lesið um marga fyrirbura sem eru í svakalegum vandræðum með að borða og halda niðri mat.
Veikindi Finns
Finnur veiktist á afmælisdaginn sinn síðasta þriðjudag. Hann fékk í magann en slapp við að æla. Það varð því lítið um hátíðarhöld en mér þótti rétt að halda uppi smá veislustemmingu, mest fyrir Önnu. Við borðuðum því kjúkling með bbq-sósu og svo var afmæliskaka í eftirrétt. Finnur reyndar treysti sér ekki í kökuna fyrr en seinna um kvöldið. Eftir matinn pökkuðum við Anna inn smá gjöf fyrir Finn og Anna bjó til kort sem ég þarf að taka myndir af við tækifæri. Alvöru gjöfin hans Finns verður grill, en það er ekki alveg búið að taka lokaákvörðun um hvernig grill skal kaupa.
Finnur var líka veikur daginn eftir, aftur með magaverk og algjörlega orkulaus. Ég fékk því að leika einstætt foreldri og verð að segja að það er nú með því erfiðara sem maður tekur sér fyrir hendur. Ætli það sé ekki verst að það er enginn til að taka krakkana ef maður vill sofa bara í fimm mínútur (uh, klukkutíma helst!) í viðbót sem þýðir að maður gengur svefnvana í gegnum það að fæða þau, klæða og koma út úr húsi. Ég skil engan veginn hvernig fólk getur staðið í því einsamalt að ala upp börn, og tek hatt minn ofan fyrir hverjum þeim sem lendir í því.
Í morgun fór Finnur á fætur á venjubundnum tíma og komst í sturtu og í fötin áður en hann hneig niður í rúm gjörsamlega búinn á því. Í þetta sinn var hann hins vegar nógu orkumikill til að geta passað Bjarka á meðan ég fór með Önnu sem hjálpaði heilmikið. Sem fyrr var ég hins vegar vansvefta og kom litlu sem engu í verk fyrr en um fjögur um daginn og þá var nú ekki mikið eftir af vinnudeginum.