Botninn loksins sleginn í 2007
Eftir mikið japl jaml og fuður, þá er ég loksins, loksins, loksins búin að klára myndavefsíðurnar fyrir drama-árið 2007. Betra er seint en aldrei býst ég við!!! Nú er bara að vinda sér í 2008 og vona að ég nái aðeins að höggva á þetta 8 mánaða forskot sem nútíminn hefur. Hvað varðar tölfræðina, þá telst vefforritinu okkar til að það séu 2827 myndir geymdar í 2007 safninu, og þær eru á 130 myndasíðum. Þar sem að 2007 kaflinn byrjar af tæknilegum orsökum um miðjan desember 2006, þá eru þetta ca. 10 síður á mánuði, eða ein síða á þriggja daga fresti.
Af nútímanum er annars það að frétta að Bjarki er ennþá með háan hita þegar hitastillandi verkjalyfið rennur af honum. Það er ómögulegt að vita hvort að það sé eyrnabólgan eða vírusinn sem er að valda hitanum, en ætli ég hringi ekki á heilsustöðina á morgun ef hann fer að ekki að braggast verulega. Hann var samt nokkuð sprækur með köflum í dag svo að vonandi er farið að sjá fyrir endann á þessu veikindabasli.
Við hjónakornin ákváðum annars að demba okkur í ólympíska handboltann í kvöld. Finnur fann hvar við gátum horft á fyrri leiki og horfði á rússaleikinn og byrjunina á leiknum á móti Þjóðverjum. Þegar leikurinn á móti S-Kóreu hófst (klukkan 23 að okkar tíma) þá uppgötvuðum við að við gátum horft á hann “læv”. Verst að úrslitin voru ekki jafn frábær og hin tvö!