Bara þannig dagur
Einn leiðbeinandinn minn sendi mér tölvupóst í morgun og spurði hvort að lífið væri ekki orðið “eðlilegt” núna – krakkarnir komnir í leikskóla og allir heilbrigðir og svona. Ég svaraði til baka að mér liði eins og ég væri í “Heart of Gold” geimskipi hans Douglas Adam og að ég væri að hlusta á skipstölvuna telja niður í eðlileg-heit. Hann svaraði á móti að það væri ólíklegt að lífið yrði nokkurn tímann eðlilegt, en að kannski myndi ég á endanum læra að lifa með kaósinu. Ég verð að viðurkenna að ég er þakklát fyrir að geta bullað bull án þess að vera rekin! 🙂
Dagurinn bar þess reyndar merki að Bjarki ákvað að sofa einstaklega illa í nótt. Það var reyndar að nokkru leyti mér að kenna því að ég hafði gleymt að gefa honum þrusk-lyfið sitt fyrir miðnætur-snarlið. Í staðinn laumaði ég því að honum þegar við vorum á leiðinni í rúmið og við það rumskaði hann. Eitthvað fór rumskið illa í hann því hann vakti meira og minna til tæplega þrjú. Ekki gott það.
Hann bætti upp fyrir svefnleysið með góðum morgunlúr (mmmm… moooorgunlúr 🙂 og svo lá leið okkar á leikskólann. Þegar ég var búin að kyssa hann bless (og honum var slétt sama líkt og venjulega) þá kom ég kerrunni að venju fyrir inni á kvennaklósetti þar sem ég geymi hana til að þurfa ekki að keyra hana til baka og svo aftur út á leikskóla seinna sama dag. Ég tók kælitöskuna af kerrunni, enda búin að skila af mér mjólkinni og jógúrtinu, og stakk bílskúrshurðaropnaranum í lítinn opinn vasa framan á kælitöskunni (sjá mynd).
Síðan valsaði ég með kælistöskuna inn á kaffiteríu þar sem ég fékk mér að borða síðbúinn hádegismat. Þegar ég var við það að leggja af stað heim aftur athugaði ég hvort að bílskúrshurðaropnarinn væri ekki örugglega á sínum stað. Ég hef einu sinni gleymt honum í kerrunni og þar sem ég nota opnarann sem húslykil, þá þurfti ég gjöra svo vel að ganga aftur út á leikskóla til að ná í hann.
Hvað um það… ég fann engan bílskúrshurðaropnara í kælitöskunni! Nú hófst dauðaleit að opnaranum: inni á kaffistofu, á leiðinni að kerrunni, í kerrunni, ég kíkti inn til Bjarka (hef einu sinni gleymt opnaranum þar) og í hin og þessi blómabeð. Ekki fannst opnarinn. Ég talaði við einn kennararnn sem hafði verið að flytja húsgögn á gönguleið minni og hún bauðst til að senda út póst til allra kennaranna, ef einhver skyldi hafa fundið opnarann.
Á meðan á leitinni stóð rann upp fyrir mér að ég var alls ekki viss um að ég hefði lokað bílskúrshurðinni á eftir okkur þegar við lögðum af stað (kerran á heima í bílskúrnum). Ég hringdi því í Finn af kaffistofunni, enda ekki með farsíma frekar en fyrri daginn og sagði honum frá óförum mínum – og því að hurðin gæti verið opin. Okkur kom því saman um að ég myndi ganga heim og ef ég kæmist inn þá myndi ég hringja í hann innan 15 mínútna. Ef ekki, þá myndi Finnur hjóla heim til að hleypa mér inn og vinna síðan að heiman.
Þar sem ég legg af stað gangandi heim kíki ég í síðasta sinni á kælitöskuna og uppgötva skyndilega að það er alveg eins vasi aftan á henni og framan á hanni – og þar liggur bílskúrshurðaropnarinn í sakleysi sínu. Gaaaaaaa!! Þegar heim var komið reyndist hurðin lokuð (hjúkkett, ekki alveg búin að missa vitið!!) og ég náði að hringja í Finn áður en hann hjólaði heim. Nú þarf ég bara að viðurkenna aulaskapinn fyrir kennurunum…