Vinnudagur verkalýðsins
2008-09-01Uncategorized Standard
Hér er þriggja daga helgi að ljúka en það var frídagur verkalýðsins á mánudegi. Ég tók stuttan blund með Bjarka á sunnudagsmorgninum og átti mér einskis ills von þegar ég fór niður með hann eftir blundinn en þá fann ég lista á eldhúsborðinu yfir allt sem hefur setið á hakanum undanfarna tvo og hálfan mánuð (frá því við fluttum inn). Það þurfti að hengja upp gardínur og myndir, taka til á hinum ýmsum hornum sem drasl hafði safnast upp á, þrífa klósettin þrjú og “húsaskúmmið” í öllum herbergjum, ryksuga og skúra og ég veit ekki hvað og hvað. Allt var tínt til. “Þetta verður svo sannarlega löng helgi” hugsaði ég með mér.
Stelpurnar höfðu skroppið á Farmers market í nágrenninu til að leyfa Önnu að sprikla aðeins. Eftir hádegismatinn hófumst við Bjarki handa. Bjarki bara kátur á gólfinu og lék sér á meðan ég þreif klósettin uppi og niðri. Mér leið hálf undarlega að skilja hann eftir einan að leika sér, og á einum tímapunkti hljóp ég niður stigann með lífið í lúkunum og hugsaði með mér “ó guð, af hverju er svona hljóðlátt niðri?!”. En, hann hafði bara skriðið að stofuglugganum og sat þar rólegur og lék sér að því að kíkja út um gardínurnar. Heilmikið sport.
Nú er helgin á enda komin og heilmikill árangur af erfiðinu, þó að ekki sé búið að krossa allt af listanum. Móðirin allavega náð að slaka á upp í sófa í kvöld, sem er ákveðið merki um árangur. 🙂 Anna Sólrún veiktist reyndar í gærkvöldi, ældi tvisvar um nóttina – en við vorum mjög stolt af henni fyrir að gefa okkur almennilega viðvörun (í fyrsta skipti á ævinni) þannig að við gátum hlaupið með hana í átt að klósettinu og á leiðinni mætti hún mömmu sinni sem hafði stokkið til og náð í “æluskál” – og mátti ekki seinna vænna. Hún hafði þar með smitast af pestinni sem Bjarki fékk við lok vikunnar. Vonandi leggjast ekki fleiri.
Stelpurnar keyptu svo um helgina kerru fyrir Bjarka sem virkar bæði sem venjuleg kerra ogsem hjólakerra og því getur Hrefna rölt með hann á leikskólann á hádegi og ég náð í þau og hjólað í lok dags með hann í eftirdragi og Önnu á sínu hjóli.
Listinn ógurlegi 🙂
Bjarki mátar nýju kerruna.
Anna slakar á í sófanum yfir Línu Langsokki
Anna slakar á í sófanum yfir Línu Langsokki