Nýr vinur
Fyrir um mánuði síðan kynntum við okkur fyrir fjölskyldunni sem býr í fjarlægari partinu á tvíbýlishúsinu við hliðina á okkur. Við rákumst á þau þar sem þau voru með krakkana úti á götu að hjóla. Þá kom í ljós að eldri strákurinn þeirra er nákvæmlega jafngamall og Anna og ég hugsaði mér gott til glóðarinnar.
Í gær þá vildi svo vel til að krakkarnir voru fyrir utan húsið sitt á meðan mamma þeirra talaði við nágrannakonu sína (og okkar). Þá tókst mér að fá Önnu til að tala við krakkana og fyrr en varði var hún farin í heimsókn að mála. Í morgun suðaði hún svo frá 8 hvort hún mætti heimsækja vin sinn og við létum loksins undan klukkan hálf tíu. Að sjálfsögðu höfum við bara fylgt henni að dyrunum og svo skilið hana eftir, sem er algjör snilld. 🙂
Nú er bara að sjá hvernig þetta þróast. Í besta falli þá sé ég fyrir mér að þau geti hringt dyrabjöllinni hjá hvoru öðru og bara farið að leika án þess að við foreldrarnir séum mikið með puttana í því. Við sjáum hvað setur… 🙂