Vússsh!
Það var hljóðið sem vikan gaf frá sér. Hún bara hljóp frá, eins og reyndar allar aðrar vikur undanfarna mánuði. Það gerðist fátt merkilegt, við vöknuðum, Finnur og Anna fóru út úr húsi, ég og Bjarki lögðum okkur, fórum svo út úr húsi á hádegi, ég lamdi höfðinu við tölvuskjáinn, Finnur náði í krakkana á meðan ég eldaði, það var borðaður kvöldmatur, krakkarnir settir í rúmið, kvöldinu eytt í sjónvarpsgláp/tölvugláp/wii spil.
Í gær og í dag fórum við reyndar í afmælisveislur. Í gær var það til stráks sem Anna var með í leikskóla í fyrra (og af og til undanfarin 4 ár) og þar hitti hún alla gömlu vinina sína – þó svo að það verið að viðurkennast að hún lék sér mest (ok, bara) við gömlu vinkonurnar. Afmælið var haldið við leikvöll í Stanford West (fyrir þá sem þar þekkja til) og það var afskaplega gaman að hitta allar fjölskyldurnar aftur, enda gamli leikskólinn sérstakur fyrir það hvað allar fjölskyldurnar náðu vel saman.
Í dag fórum við svo í afmælisveislu til stráks í nýja bekknum hennar Önnu. Þar sem að Finnur fer með Önnu á hverjum morgni og sækir hana á næstum hverjum einasta degi, þá þekki ég krakkana ekki svo vel (sérstaklega ekki nýju krakkana), og heldur ekki foreldrana. Það var því svolítið panikk/stress að reyna að ná hvað allir hétu og hverjum þeir tengdust (það hjálpar ekki að fullt af fólki heitir “skrítnum” nöfnum)… Veislan var annars haldin af fólki sem hefur eignast gríðarlega mikla peninga í tæknibransanum, og það var gaman að koma í svona stórt og fínt hús og svona stóran og fínan garð. Þau eiga fjögur börn og því fullt af leiktækjum og skemmtilegheitum. Gaman að þessu! 🙂