Jæjajá, þabbara þannig!
Ísland virðist vera heldur betur komið í fréttinar, og það ekki af góðu. Skrítið að vera svona langt í burtu þegar allt er komið á hvolf. Ég hef samt ekki séð neinar fréttir um bein áhrif á líf fólks… er allt komið í ládeyðu eða fer fólk ennþá í bíó? Íslendingurinn í mér heldur áfram að segja “Þetta reddast” en ætli spurningin sé ekki hvað gerist í millitíðinni?
Hér úti er svo sem allt í rugli líka og enginn virðist vita neitt. Sem stendur finnum við engin bein áhrif, fyrir utan að vonandi er landið að átta sig á því hvern það á að kjósa í komandi forsetakosningum. Það er samt áhyggjuefni hvað kosningabaráttan hefur tekið á sig ljótan tón, sérstaklega frá frambjóðandanum sem er undir í skoðunarkönnununum.
Í skemmtilegri fréttum þá fór ég með Bjarka í 15 mánaða skoðun á þriðjudaginn (sem samsvaraði í raun eins-árs skoðun) og hann heillaði lækninn sinn upp úr skónum. Þar sem hún kom til að segja hæ þá stóð hann upp og fór kátur að fikra sig meðfram spegli sem var fyrir ofan skoðunarbekkinn. Eftir fyrstu-gráðu-yfirheyrslu og nánari skoðun þá lýsti hún því yfir að hann liti rosalega vel út sem gladdi móðurhjartað. Nýjustu tölur eru að hann er orðinn 77cm (33.3 inches) og 9 kg (19.8 lbs). Þar með er hann á 10% línunni fyrir 12 mánaða þyngd en á milli 50-75% fyrir 12 mánaða lengd. Jamm, langur og grannur, sem ætti kannski ekki að koma á óvart. Höfuðummál er á 90% línunni fyrir 12 mánaða, 47.7 cm.
Ég læt fylgja með þyngdar-og lengdargröfin frá heilsugæslunni. Þau eru ekki leiðrétt fyrir aldur, og því er nýjasti punkturinn settur inn eins og Bjarki væri 15 mánaða. Á skrifstofunni sýndi læknirinn mér hvernig punktarnir líta út þegar maður dregur frá 3 mánuði, og þá er hann greinilega aftur farinn að fylgja gömlu vaxtalínunni sinni eftir smá “pomms” sem byrjaði þegar hann fékk flesuna með okkur hinum í lok apríl. Annars borðar Bjarki mjög vel og það ber ekkert á matarfælni sem stendur.